151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[18:25]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér var nefnt að það væri svo ef nefndin mæti það þannig að markmiðum frumvarpsins yrði ekki náð með öðrum hætti. Ég hlýt þá að spyrja hvernig það mat hafi farið fram vegna þess að það skýtur auðvitað skökku við, í ljósi núverandi aðstæðna og þess ágæta árangurs sem við höfum náð í bólusetningum og markmiða stjórnvalda og yfirlýsinga um ákvörðun þeirra um að afnema sóttvarnaaðgerðir innan lands 1. júlí í ljósi þess góða árangurs í bólusetningum, að hér komi fram frumvarp um verulega íþyngjandi aðgerðir á landamærum sem brjóta mögulega gegn stjórnarskránni.

En ég óska líka eftir upplýsingum um það af hverju ekki var óskað eftir fulltrúum frá fleiri flugfélögum sem hingað fljúga. Þetta getur auðvitað verið mjög íþyngjandi. Þótt það sé ekki íþyngjandi fyrir Icelandair getur það verið íþyngjandi og komið í veg fyrir að fleiri flugfélög fljúgi hingað á næstu mánuðum og jafnvel árum (Forseti hringir.) vegna þess að svona aðgerðir munu alveg örugglega ílengjast og festast í sessi.