151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[18:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hluta í þessu máli sem er langt frá því að vera óumdeilt eins og komið hefur fram í andsvörum við hv. framsögumann álits meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Mig langar aðeins að tala um forsögu málsins sem kveður á um heimild samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að setja reglugerð sem skyldar flugrekendur m.a. til að synja farþega um flutning til landsins ef hann framvísar ekki ákveðnum gögnum um ónæmisaðgerð, vottorði um að sýking sé afstaðin eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu prófs. Verið er að tala um að setja lög sem heimila reglugerð sem skyldar flugrekendur, einkaaðila, til að banna Íslendingum að koma til Íslands, vissulega við tilteknar aðstæður en við eigum stjórnarskrá sem kveður á um fortakslausan rétt Íslendinga til að koma til landsins. Þrátt fyrir að hægt sé að telja upp dæmi eru þau öll þess eðlis að þau komast ekki með tærnar þar sem þetta mál hefur hælana í því að skylda flugfélög til að hindra Íslendinga í að koma til landsins. Þetta er ekki einfalt mál. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson, framsögumaður meirihlutaálitsins, fer alveg yfir það að þetta er ekki einfalt mál.

Það eru greinilega áhöld um það hvernig nefndarmenn túlkuðu þau orð sem komu fram þegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fór þess á leit við umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis að flytja málið. Það var um miðjan mars og þetta átti að gerast hratt og örugglega. Sem betur fer komu vöflur á einhverja sem leiddi til þess að ný tillaga kom frá ráðuneytinu. Þá var búið að taka ákvæðið út, þ.e. um að skylda flugfélaga næði ekki til íslenskra ríkisborgara. En það fór aftur í gegnum kerfið og þótti ekki nóg. Síðan er það búið að velkjast fram og til baka. Sérfræðingarnir í stjórnskipunarrétti, við vísum í þau hér, sem við báðum um að mæta eingöngu til þess að meta þennan hlut — ég ætla að leyfa mér að segja, með fullri virðingu fyrir öðrum, þar með talið starfsmönnum þess ráðuneytis sem ber málið fram, að þarna séu mögulega að baki önnur, a.m.k. ríkari sjónarmið — voru sammála að því leyti til að þau töluðu öll um grátt svæði. Fyrsti gesturinn var jákvæður gagnvart þessu ef skylda bæri til, annar gesturinn talaði eins skýrt og hægt var um að þetta væri ekki í lagi og þriðji gesturinn talaði um mikilvægi þess að við fengjum úr því skorið hvort þörf væri á þessu. Það sem gerist í millitíðinni, frá sérfræðingi eitt og tvö og þar til þriðji kemur, er að settar eru mjög miklar hindranir fyrir útlendinga jafnt sem Íslendinga að komast í gegnum landamærin, sóttvarnareglur eru hertar. Þannig er staðan með þetta mál, við förum fram og til baka með þetta.

Mig langaði líka í sambandi við forsöguna, áður en ég fer í nefndarálit 1. minni hluta og þá breytingartillögu sem við leggjum fram, að segja að stjórnvöld hafa með réttu biðlað til almennings og hvatt til úthalds í því sem eru vonandi lokametrarnir í baráttunni við þennan fjára. Við erum í góðum gír með bólusetningar miðað við allt og allt. Við erum að ná tökum á þessum nýju skerðingum á landamærunum; það er skimun og það er sóttkví og það er skimun. Síðast í dag er verið að fjölga löndum sem kallast hááhættusvæði þar sem er kvöð á farþegum að fara á sóttvarnahótel. Þetta gengur tiltölulega smurt. Ég er ekki að segja að ekki þurfi mikið átak til en þetta gengur heldur betur vel þrátt fyrir allt. Þess vegna skýtur mjög skökku við að okkur skuli bresta úthaldið akkúrat í atriði sem lýtur hvorki meira né minna en að stjórnarskránni okkar og rétti Íslendinga til að komast til landsins. Ég verð að segja að ákallið um úthald mætti vera svolítið þarna líka vegna þess að ég set stórt spurningarmerki við nauðsyn þessa máls yfir höfuð.

Frumvarpið á við íslenska ríkisborgara jafnt sem erlenda. Það þýðir einfaldlega að verði það að lögum kann það að þýða að íslenskum ríkisborgurum verði synjað um að komast til landsins. Ég ætla að hnykkja á því sem kemur fram í minnihlutaálitinu. Þar er vísað til fortakslauss ákvæðis 66. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi forseta: „Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi.“ Það felur í sér að óheimilt er að setja lög sem takmarka rétt Íslendinga til að koma til heimaríkis síns, til Íslands. Þarna er því verið með stjórnarskránni að setja löggjafanum skýrar skorður. Sambærilegar reglur er síðan að finna í mannréttindasáttmála Evrópu sem segir, með leyfi forseta: „Eigi má banna nokkrum manni að koma til þess ríkis sem hann er þegn í.“ Þetta telst til grundvallarréttinda sem felast í ríkisborgararétti.

Fyrirgefðu, herra forseti, ég ætla að bakka aðeins og lesa upp. Ég er að reyna, í ljósi þess að spara tíma, að lesa ekki allt minnihlutaálitið en mig langar til að grípa niður í það, með leyfi forseta:

„Í ritinu Stjórnskipunarréttur: Mannréttindi eftir Björgu Thorarensen er fjallað frekar um þennan rétt íslenskra ríkisborgara. Þar segir:

„Löggjafanum er óheimilt að víkja frá fyrirmælum 2. mgr. 66. gr. og það sama gildir vitaskuld um handhafa framkvæmdarvalds. Því er óheimilt að skilyrða landvistarrétt íslenskra ríkisborgara með einhverjum hætti, þeir verða hvorki gerðir útlægir vegna refsiverðrar háttsemi né meinað að koma til landsins á þeim grundvelli svo dæmi séu tekin.““

Það telst ekki andstætt þessum rétti þótt íslenskir ríkisborgarar verði að hlíta lagareglum sem gilda um komu og brottför, t.d. að gefa sig fram við vegabréfaeftirlit og framvísa vegabréfi þar sem menn sýna fram á að þeir séu íslenskir ríkisborgarar og hafi þar með þennan rétt. Hið sama má segja þegar tínd eru til sem meðrök með ákvæðinu, þessu banni sem meiningin er að festa í lög, að flugfélög hafi leyfi til að banna drukknum farþega að koma um borð. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að við erum að tala um lagasetningu sem skyldar flugfélagið til að banna. Á því er auðvitað grundvallarmunur. Framvísun vegabréfsins er fyrst og fremst sönnun á ríkisborgararétti og hafi menn þá sönnun eru þeir stjórnarskrárvarðir.

Sérfræðingar í stjórnskipunarrétti komu fyrir nefndina og að mati 1. minni hluta komu þar fram sjónarmið sem ég fór yfir áðan um gráa svæðið sem nefndin ætti að virða, að mati 1. minni hluta, þ.e. að ríkið megi ekki beita valdi til að koma í veg fyrir að farþegi sem hefur vegabréf sem staðfestir íslenskan ríkisborgararétt geti komið til landsins.

Mig langar að grípa beint niður í nefndarálit 1. minni hluta þar sem segir, með leyfi forseta:

„Í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar kemur fram sú afstaða að orðalag 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar verði ekki túlkað þannig að tímabundið óhagræði sem farþegi kann að verða fyrir, og leiðir af reglum stjórnvalda um komur til landsins, feli eitt og sér í sér brot gegn stjórnarskránni. Hins vegar geta þær aðstæður komið upp að íslenskur ríkisborgari sé í slíkum aðstæðum vegna heilsufars, fjárhagsörðugleika eða ótryggs samfélagsástands í því ríki þar sem hann er staddur að honum sé ekki fært að verða sér úti um þau vottorð sem meiri hluti nefndarinnar leggur til að honum verði skylt að framvísa.

Neyð íslenskra ríkisborgara getur verið slík að tryggja þurfi þeim örugga heimkomu svo fljótt sem verða má.“

Við erum að tala um að þær aðstæður geti komið upp að það sé verulegt óhagræði og geti verið hættulegt, geti verið ómögulegt fyrir íslenskan ríkisborgara að útvega sér þessi gögn til að komast heim. Að halda að það geti gengið upp og vísa í borgaraþjónustu utanríkisþjónustunnar — þá er bara verið að taka ákveðinn séns með velferð íslenskra ríkisborgara sem mér finnst, og okkur sem stöndum fyrir áliti 1. minni hluta, ekki vera rök fyrir í ljósi stöðunnar eins og hún er í dag, til viðbótar við það stóra gráa svæði sem við erum á þegar kemur að mögulegu broti á stjórnarskránni.

Almennar sóttvarnaaðgerðir hér á landi á borð við skimun við heimkomu og sóttkví við komu til landsins, eftir atvikum í sérstöku sóttvarnahúsi, eins og nýleg reglugerð kveður á um, eru að mati 1. minni hluta sterkar og ná fram því markmiði sem verið er að sækjast eftir í þágu sóttvarna. Að mati 1. minni hluta er hætta á því að með því að festa í lög slíkar takmarkanir séum við að fara gegn stjórnarskrárvörðum rétti íslenskra ríkisborgara til að koma til landsins á þeim tíma sem sterkar varnir í þágu sóttvarna eru fyllilega tryggðar.

Herra forseti. Sóttvarnir eru aðgerðir í þágu ríkra almannahagsmuna. Ég held að ekkert okkar velkist í vafa um það. Stjórnvöld hafa af þeirri ástæðu bæði rétt og skyldu til að verja líf og heilsu landsmanna. 1. minni hluti telur að sú skylda og sá réttur stjórnvalda sé bæði mikilvægur og skýr. Ekki er hægt að virða að vettugi sjónarmið sérfræðinga í stjórnskipunarrétti sem hafa bent á fortakslausan rétt íslenskra ríkisborgara að þessu leyti þegar til viðbótar liggur fyrir að nauðsyn ákvæðisins sé einfaldlega ekki skýr.

Eftir að sóttvarnalögin höfðu verið hert á landamærunum kölluðum við í nefndinni, rétt eins og einn sérfræðinganna í stjórnskipunarrétti nefndi, sá síðasti sem kom á fund nefndarinnar, eftir upplýsingum eða sjónarmiði ráðuneytanna sem hlut eiga að máli um hvort þörf væri á þessu, hvort þörf væri á svo ströngum viðurlögum, þessu óvissa inngripi í stjórnarskrárbundinn rétt í ljósi þess hvernig sóttvarnalögin eru núna. Svörin voru ekki sérlega efnismikil en einhvern veginn á þá leið að þetta væri mikilvægt af því að við værum að fá svo marga ferðamenn til landsins og það væri svo mikið álag á landamærunum að betra væri að grisja þetta á landamærum erlendis. Þetta, herra forseti, er ekki grundvöllur fyrir því að taka þá áhættu að við séum að setja lög sem stangast á við íslenska stjórnarskrá og brjótum á stjórnarskrárbundnum rétti íslenskra ríkisborgara og getum mögulega verið að stefna heilsu þeirra á einhvern hátt í tvísýnu. Við höfum ekki hugmynd um hvaða aðstæður geta komið upp þegar Íslendingar eru að reyna að koma heim til sín. Ég bendi á til viðbótar að við erum ekki að tala um íslenska ríkisborgara sem eru sannarlega veikir og þurfa að komast heim, við erum að tala um íslenska ríkisborgara sem geta einhverra hluta vegna ekki sannað að þeir séu ekki veikir og vilja komast heim. Þar er líka töluverður munur í ljósi þess hversu langt er seilst með þessari tillögu.

Svo að ég ítreki það þá finnst mér áhersla 1. minni hluta vera á óvissuna með inngrip í stjórnarskrárbundinn rétt íslenskra ríkisborgara og óvissuna um nauðsyn þessa ákvæðis. Ég túlka það þannig að þetta snúist ekki um sóttvarnir. Við erum ekki að auka hættuna á því að hingað komi til lands sýktir einstaklingar sem smita út frá sér. Sú girðing er fyrir hendi. Við erum að létta á álagi á landamærunum á kostnað þessara ríkisborgara Íslands.

Að þessu gefnu leggur 1. minni hluti til þá breytingu að við 1. gr. bætist ný efnismálsgrein, sem verði 2. mgr., svohljóðandi:

„Þrátt fyrir b-lið 1. mgr. tekur skylda til að synja farþega um flutning ekki til íslenskra ríkisborgara.“

Að öðru leyti tekur 1. minni hluti undir breytingartillögur meiri hluta og að samþykktri þessari breytingartillögu leggjum við til að málið verði samþykkt.