151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[20:01]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég hef óskað eftir að þetta mál gangi aftur til nefndar milli 2. og 3. umr., það fari aftur til nefndarinnar. Ég veit að það er ríkur vilji fyrir því hjá minni hlutanum. Þá vil ég segja inn í þá umræðu: Þessar upplýsingar verða að liggja fyrir þegar menn segja að það sé nauðsynlegt að gera þetta. Hvað eru margir sem segja: Nei, við viljum ekki framvísa PCR-vottorði á brottfararstað? Þá vitum við umfangið, þetta eru kannski nokkrir einstaklingar. Og þá getum við metið sóttvarnahættuna af því, miðað við að megnið af íslenskum ríkisborgurum verða bólusettir eftir einn til tvo mánuði. Við erum bara komin á þennan stað og sóttvarnahættan er svo miklu minni. Þá er hægt að meta þessa meintu nauðsyn sem mér sýnist vera mjög augljóst að er ekki til staðar af því að það er hægt að fara aðrar leiðir en að taka áhættuna á því að brjóta stjórnarskrá.