151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[15:52]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla eins og margir aðrir hv. þingmenn að þakka fyrir þessa skýrslu og taka undir þær þakkir eða ábendingar um að skýrsla sem þessi, sem nú er lögð fram í annað sinn, er mikið þarfaþing fyrir þingið, þingmenn og almenning og veitir ágætisyfirlit yfir framkvæmd EES-samningsins og er til þess fallin að auka skilning okkar allra á þessum mikilvæga alþjóðlega samningi sem Ísland á aðild að. Ég tek undir meginefni skýrslunnar að því leyti, anda skýrslunnar, ef mætti orða það þannig, sem er auðvitað í þá átt að EES-samningurinn sem við höfum í áratugi verið aðilar að gagnvart Evrópusambandinu er mikið þarfaþing og hefur verið til mikilla hagsbóta fyrir Ísland í langflestu tilliti.

En svo að ræða mín og umfjöllun um þessa skýrslu sé ekki öll á einn veg vil ég nefna nokkur álitaefni og það er heldur engin ástæða til að forðast það að ræða álitaefni sem koma upp í samningum og samskiptum þjóða, það er bara óhjákvæmilegt með alþjóðasamninga af þessum toga, jafn yfirgripsmikill einmitt og EES-samningurinn er. Ég ætla ekki að fara í mikla umræðu um það sem hæstv. utanríkisráðherra hefur svo sem margoft bent á, réttilega, og ég tek undir með honum með það, um fjölda þeirra gerða sem við erum að innleiða hér. Fjöldinn er auðvitað ekki eins og menn hafa viljað vera láta. Það er fullkomlega ólíku saman að jafna, þátttöku okkar í samstarfi við Evrópusambandið í gegnum EES-samninginn annars vegar og hins vegar inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það er langur vegur þarna á milli.

En þó hef ég nú rekið augun í og veitt því athygli að EES-samningurinn hefur undanfarin ár verið að teygja sig inn á önnur svið en honum var upphaflega ætlað að taka til. Þannig hafa loftslagsmál verið umfangsmeiri undanfarin misseri og í sjálfu sér er samningurinn að einhverju leyti notaður til þess að styðja við annars konar samkomulag Íslands við Evrópusambandið sem er algjörlega ótengt Evrópusambandinu. Um það er fjallað í skýrslunni í kafla 5 á bls. 19, kafla sem kallast Mál sem eru ofarlega á baugi í EES-samstarfinu og í samskiptum við ESB. Þar er vísað til svokallaðs græns sáttmála, og hér er ágæt umfjöllun um það, sáttmála sem framkvæmdastjórn ESB kynnti gagnvart sínum aðildarlöndum, ekki gagnvart öðrum löndum. Hann varðar markmið Evrópusambandsríkjanna í loftslagsmálum m.a., með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda svo mjög miklu nemi í Evrópusambandslöndunum.

Ég hef rætt það áður hér á þessum vettvangi og víðar að aðstaða Íslands er auðvitað allt önnur og Noregs reyndar líka þótt það sé ekki til umfjöllunar hér. En Ísland sker sig auðvitað úr í loftslagsmálum í samanburði við nánast velflest ríki heimsins en þó einkum og sér í lagi Evrópusambandsríkin. Þess vegna voru það mistök að mínu mati eða öllu heldur trúlega sprottið af einhvers konar misskilningi á eðli eða á umfangi stefnu Evrópusambandsríkjanna í loftslagsmálum og trúlega líka einhvers konar misskilningi í tengslum við framhald á Kyoto-samkomulaginu á sínum tíma, að árið 2015, þegar Parísarsáttmálinn var samþykktur, sem er framhald af alþjóðlegu Kyoto-bókuninni, þá tilkynnti Ísland um þátttöku sína í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um 40% samdrátt gróðurhúsalofttegunda á mjög stuttu tímabili, árunum 2021–2030, og miðað við árið 1990. Í framhaldinu hefur EES-samningurinn verið notaður til þess að vinna í þessu markmiði sem Ísland er í rauninni fyrir löngu búið að uppfylla, gerði það vel fyrir 1990 og á í raun óhægt um vik að uppfylla það nema með kannski endurheimt votlendis, eins og ég hef margoft nefnt. En mér hefur fundist það ljóður á framkvæmd EES-samningsins undanfarin misseri að hann skuli hafa verið nýttur í þessu tilliti og þar með örlítið að menga þá skýru sýn sem EES-samningurinn átti að veita og á að varpa til framtíðar í samstarfi þessara ríkja á sviði fjórfrelsisins, á sviði frjálsra viðskipta milli landa, fjármagns og fólksflutninga. Það er af nógu að taka þegar kemur að fjórfrelsinu og fullt tilefni til að skerpa á mörgum þáttum sem þar falla undir án þess að verið sé að draga inn nýja málaflokka sem þess utan falla einfaldlega ekki að hagsmunum Íslands í samskiptum við Evrópusambandsríkin.

Mig langar að nefna að lokum annað atriði sem ég hegg eftir í þessari skýrslu sem er nefnt á bls. 23 í kafla 5.6, sem varðar það sem kallað hefur verið bókun 35 við EES-samninginn. Bókun 35 við EES-samninginn mælir fyrir um að EFTA-ríkin, m.a. Ísland, skuldbindi sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að komi til árekstra á milli innlendra EES-reglna og íslenskra reglna og annarra settra laga skuli EES-reglurnar gilda. Komi til árekstra milli íslenskrar löggjafar og innleiddrar löggjafar á sviði EES þá víki íslensku reglurnar, þ.e. það þurfi að túlka íslenska löggjöf með hliðsjón af EES-rétti. Það hafa sprottið upp vangaveltur um þetta og miklu meira en það, Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur haft forgöngu um það að benda á að svo virðist sem íslensk dómaframkvæmd styðji ekki við þessa bókun og ekki við 3. gr. EES-samningsins sem kveður á um hvernig þetta skuli innleitt. Þetta eru svo til nýjar áhyggjur af hálfu eftirlitsstofnunarinnar og ég verð að hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir hvernig hann hefur haldið á því máli og haldið afstöðu Íslands til haga gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA í þessum efnum með því að mótmæla þessari túlkun og benda á hina augljósu staðreynd að þetta hefur ekki þótt vera vandamál hingað í EES-samstarfinu. En mér hefði kannski þótt mátt kveða sterkara að orði í þessari skýrslu vegna þess að hér er fullyrt að það sé í rauninni ótímabært að leggja til breytingar á lögum til samræmis við þessar athugasemdir stofnunarinnar og er um það vísað til dóms stjórnlagadómstóls Þýskalands sem komst að þeirri niðurstöðu nýlega að Evrópurétturinn viki ekki til hliðar innlendum rétti í Þýskalandi. Hér hefði ég ekki talið það ótímabært að leggja til breytingar. Mér hefði þótt full ástæða til þess að fullyrða það fullum fetum að það komi ekki til greina af Íslands hálfu að breyta löggjöf eða stjórnarskrá í þá átt að íslensk lög eða íslensk löggjöf verði sett til hliðar við reglur frá Evrópusambandinu.