151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég kem hérna upp og ætla að freista þess að leita liðsinnis hæstv. forseta við það að ítreka skil á skriflegu svari við fyrirspurn. Nú er liðnir 30 virkir dagar síðan ég lagði fyrir hæstv. menntamálaráðherra fyrirspurn þar sem mig fýsti að vita hvernig nýting hefði verið á 500 millj. kr. styrk til sumarnáms fyrir atvinnulausa vegna Covid. Það eru uppi vísbendingar um að þessir fjármunir hafi að stórum hluta runnið í rekstur námskeiða opinberu háskólanna sem eru í beinni samkeppni við einkaaðila. Svör hafa ekki fengist en á sama tíma hefur ríkisstjórnin ákveðið að veita samsvarandi eða hærri fjárhæð aftur í sumar. Það er einfaldlega mjög mikilvægt akkúrat á þessum tíma að við höfum almennilega yfirsýn yfir það hvort þessir Covid-styrkir ríkisstjórnarinnar renni til opinberra aðila sem nýti þá beint í samkeppni við einkafyrirtæki sem eiga undir högg að sækja fyrir vegna Covid og þurfa sannarlega ekki á slíkum ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar að halda.

Ég óska eftir aðstoð hæstv. forseta við að þessi skýrsla líti dagsins ljós. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið óskað eftir fresti til að svara. (Forseti hringir.) Þessi tími er liðinn og það skiptir máli fyrir okkur og fyrir þá aðila sem málið varðar að vita hvernig verið er að verja þessum styrkjum.