151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég kæmi venjulega hingað upp með tölvuna mína og myndi þá rekja nýjustu tölur um svör við fyrirspurnum en ég er ekki með hana í þetta skipti þannig að ég get ekki verið með þá keyrslu. Ég tek undir þær ábendingar sem koma hér fram. Nú berst sá orðrómur, eða það kemur fram á fundi forsætisnefndar, að drífa eigi í gang og klára á morgun mál sem snýst um framlengingu ýmissa úrræða vegna Covid-aðgerða. Enn og aftur er í rauninni verið að troða aðgerðum í gegn á mjög stuttum tíma og án þess að þingið fái tækifæri til að skoða áhrif aðgerða sem hefur verið farið í áður en farið er að framlengja þær. Það eru rosalega slæm vinnubrögð þegar allt kemur til alls að sífellt sé verið að demba á okkur dagsetningum á málum sem er nægur tími til að hugsa um fyrir fram. Það er einhvern veginn eins og ríkisstjórnin kunni ekki á dagatal eða eitthvað svoleiðis (Forseti hringir.) og sjái allt í einu: Úps, það er örstutt þangað til þetta rennur út. Við verðum að henda frumvarpi í gegnum þingið núna til að passa upp á (Forseti hringir.) að þingið nái ekki að skoða afleiðingar (Forseti hringir.) af þeim tillögum sem við leggjum til.