151. löggjafarþing — 95. fundur,  11. maí 2021.

samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar.

606. mál
[16:05]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eftirlit með skilmálum í neytendasamningum. Ég ætla að víkja frá þeirri venju að lesa einfaldlega upp úr greinargerð og reyna mitt besta til að útskýra þetta á hinu svokallaða mannamáli.

Í lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga er ein frekar falleg grein, 36. gr., en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig …“

Svo er þarna meiri lagatexti sem ég hygg að geti bara flækt málið. Þessi grein er hugsuð til þess, ásamt öðrum í lagasafninu, að vernda fólk fyrir ósanngjörnum skilmálum í samningum. En það er hins vegar brotalöm á því hvernig er hægt að framfylgja þessum rétti neytenda. Frumvarpið felur í sér að Neytendastofa hafi eftirlit með ákvæði þessu sem og öðrum, þ.e. 36. gr. og 36. gr. a–d í þeim lögum sem ég var hér að lesa upp úr þegar kemur að neytendasamningum. Ástæðan er sú að þegar neytandi gerir samning í hverjum felast ósanngjarnir skilmálar hefur hann í reynd ekkert tæki eftir á til að verja sig nema að fara dómstólaleiðina. Það er dýrt, það er flókið og þetta á við jafnvel þegar það liggur fyrir að skilmálar samningsins séu ólögmætir og ósanngjarnir. Með öðrum orðum, þetta er svokallað „computer says no“-vandamál og þetta frumvarp er sett fram til þess að laga það vandamál.

Með frumvarpinu og lögsetningu þess gæti Neytendastofa gripið til aðgerða gegn þeim aðilum sem brjóta gegn m.a. þessu ákvæði sem ég nefndi áðan og þar með betur tryggt hagsmuni neytenda gagnvart þeim skilmálum sem hafa verið metnir eða úrskurðaðir ólögmætir og ósanngjarnir.

Ég ætla ekki að fara yfir í það tæknilega, virðulegi forseti, ég hygg að það sé betra fyrir áhugafólk að lesa frumvarpið sjálft og greinargerð þess fyrir nákvæmar skýringar á lagatæknilegum atriðum málsins. En síðast en ekki síst vil ég minnast á það með hlýhug að þetta frumvarp er komið frá Hagsmunasamtökum heimilanna sem hafa verið ötulir talsmenn neytenda og eiga þakkir og hrós skilið fyrir sína baráttu í þeim efnum og vitaskuld þakkir fyrir þetta ágæta frumvarp.

Að því sögðu óska ég þess að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.