151. löggjafarþing — 95. fundur,  11. maí 2021.

aðgerðir til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis.

612. mál
[16:46]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Þau tilfinningaríku viðbrögð sem verða stundum í kringum þessa umræðu endurspegla náttúrlega að leiðin að hjarta mannsins er í gegnum magann. Einhvern veginn virðist þetta vera besta leiðin til að hleypa blóðþrýstingnum upp. En það byggir allt á misskilningi vegna þess að eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns þá erum við ekki að ræða það að taka eitt eða neitt af fólki heldur bara gefa þeim sem vilja grænkerafæði og þeim sem gætu viljað það möguleikana og valkostinn, frelsið til að velja frekar en að vera t.d. fast í því að þurfa að borða í mötuneyti þar sem próteingjafinn er alltaf úr dýraríkinu. Þá er verið að taka eitthvað af fólki sem vill eitthvað annað.

Varðandi hvers konar kynslóðamál þetta er er líka ágætt að rifja upp kannanir á veganisma á Íslandi sem sýna að það er rosalega lítið af fólki vegan á Íslandi en það skiptist alveg ofboðslega ójafnt á milli hópa í samfélaginu. Ef við skoðum t.d. bara konur undir 25 ára þá er frekar algengt að í þeim hópi séu veganistar. Grænkerar eru að verða stærsti hluti þess hóps. Ef við tökum sem dæmi stórfjölskyldu sem fer út að borða, þar sem eru átta manns í kringum veisluborðið og þar af eru kannski tvær eða þrjár konur undir 25 ára, þá útiloka veitingastaðir sig t.d. frá því að taka á móti þessari stórfjölskyldu ef þeir taka ekki fullt tillit til grænkerans í hópnum. Það eru orðnar yfirgnæfandi líkur á því að það sé alla vega einn grænkeri í svona samsettum hópi. (Forseti hringir.)

Og svo bara rétt að lokum, frú forseti, þá tek ég algjörlega undir það með hv. þingmanni að hér er allt að vinna fyrir íslenska bændur og íslenska neytendur og umhverfið.