151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

umferð um Hornstrandir.

[13:30]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta. Ég er ekki inni í því nákvæmlega hvar sú vinna stendur sem hv. þingmaður nefnir hér, enda erum við með yfir 120 friðlýst svæði á Íslandi þannig að það er erfitt að vera inni í málefnum hvers og eins þeirra. Ég held að það væri langskynsamlegast að hv. þingmaður fengi að hitta fólk á Umhverfisstofnun vegna þessa máls sérstaklega. Það er án efa auðsótt mál. Það er hins vegar mjög mikilvægt mál sem hv. þingmaður nefnir hér vegna þess að það snýst um að reyna að ná einhvers konar jafnvægi í því hvaða áhrif umferð fólks í friðlandinu hefur á náttúruna og líka jafnvægi í samneyti við það fólk sem á land á svæðinu. Ég held að það séu góð ákvæði sem sett voru inn í stjórnunar- og verndaráætlun og ég vonast til að sú vinna gangi vel.