151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

lax- og silungsveiði.

345. mál
[15:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram í nefndaráliti sem ég minntist á hér áðan að meiri hlutinn telji mikilvægt að nefndarmenn hafi þekkingu sem nýtist í störfum hennar. Það hefur komið fram í umræðu um málið í töluvert langan tíma vegna þess að það hefur verið í umfjöllun nefndarinnar. Þetta er annar þingveturinn sem við erum með málið og málið á sér enn lengri sögu. Við leggjum í áliti okkar áherslu á að meiri hlutinn telji mikilvægt að nefndarmenn hafi þekkingu sem nýtist í störfum hennar. Þá kemur skýrt fram að með því að Hafrannsóknastofnun fái rétt til tilnefningar sé tryggt að innan nefndarinnar verði til staðar fiskifræðileg þekking og sérþekking á lífríki vatna og straumvatna sem gæti m.a. reynt á í tengslum við álitaefni í arðskrá. Þá bendum við enn fremur á, í áliti meiri hluta, að þrátt fyrir að fallið sé frá skilyrði um að nefndarmaður hafi hæfi héraðsdómara geti ráðherra við skipan í nefndina litið til þess að nefndarmaður uppfylli slík skilyrði eða hafi þekkingu á þeim lögum sem nefndin vinnur eftir.

Það kemur fram í þessu stutta nefndaráliti að verið er að leita eftir að tryggð sé þekking, fiskifræðileg þekking, sérþekking á lífríki vatna og straumvatna, sem gæti m.a. reynt á í vinnu þessarar nefndar. Þarna eru flókin málefni og margt sem þarf að taka tillit til. Það var niðurstaðan að þetta væri til að styrkja þessa vinnu.