151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

lax- og silungsveiði.

345. mál
[15:29]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fullyrði að lögfræðingar úti um allt land sitja núna klökkir vegna þess mikla stuðnings sem hv. þingmaður hefur lýst yfir við þeirra störf og þá kröfu sem hann gerir til þess að nákvæmlega þeir sitji í þessari matsnefnd. Ég ætla kannski ekki að gera neinn ágreining um það hverjir eigi í sjálfu sér að sitja í þessari matsnefnd. Sjálfsagt er hægt að hafa uppi ýmis sjónarmið að því leyti. Hins vegar langar mig að rifja stuttlega upp að breytingar á matsnefndinni hafa áður verið gerðar. Hér áður fyrr var nefnd sem var skipuð tveimur einstaklingum sem voru tilnefndir af hálfu Hæstaréttar — ráðherra hafði ekkert um það að segja hverjir sátu í þessari matsnefnd — og svo væntanlega einn frá Landssambandi veiðifélaga. Nú er staðan sú að einn er skipaður án tilnefningar, einn frá Hæstarétti og einn frá Landssambandi veiðifélaga. Og hér er lagt til að Hæstiréttur tilnefni ekki lengur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann geri virkilega athugasemdir við það að þetta verkefni verði tekið frá Hæstarétti sjálfum. Ég hef í mörg ár bent á að Hæstiréttur hefur nóg með sig. Það eru tugir lagabálka þar sem kveðið er á um að Hæstiréttur hafi einhverja aðkomu að tilnefningu í ýmsar nefndir og ráð og ég tel komið fullt tilefni til að breyta því. Þess vegna fagna ég þessari breytingartillögu sérstaklega. En mig langar að vita hvort hv. þingmaður geti verið sammála mér um að ekki sé nauðsynlegt að Hæstiréttur tilnefni í þessa matsnefnd þótt við getum haft uppi ýmis sjónarmið um hvort þar eigi að vera lögfræðingar eða einhverjir fræðingar á öðru sviði.