151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

lax- og silungsveiði.

345. mál
[15:33]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hlutverk Hæstaréttar er að binda enda á lögfræðilegan ágreining þeirra sem leita til dómstóla með sinn ágreining. Hæstiréttur er ekki alfa og omega alls lögfræðistarfs í landinu. Það var nú bara það sem ég var að vísa til. Það væri gott að heyra frá hv. þingmanni hvort hann geti ekki verið sammála mér um að það hljóti nú að vera ráðherrann í hverjum málaflokki sem hafi þetta tilnefningarvald og hvort ekki hefði bara verið eðlilegra að ganga enn lengra og láta þá tvo sem út af standa vera tilnefnda af ráðherranum sjálfum án þess að blanda öðrum stofnunum í það, hvorki Hafrannsóknastofnun né Hæstarétti. Ráðherra ber ábyrgð á tilnefningum í svona nefndir og hann gerir það auðvitað eftir bestu vitund á hverjum tíma og leitar til þeirra sem þörf er á. Ég bendi líka á að svona mál geta oft endað fyrir dómstólum og að mínu viti er ekki heppilegt að verið sé að gera þá kröfu á Hæstarétt sýknt og heilagt að hann sé að tilnefna menn í alls kyns nefndir og ráð, þar á meðal í úrskurðarnefndir í málum sem geta jafnvel síðan endað fyrir Hæstarétti. Það þarf að fara fram mikil lagahreinsun hvað þetta varðar sérstaklega. En við getum verið sammála um það, hv. þingmaður og ég, að auðvitað er þessari nefnd mjög nauðsynlegt að hafa lögfræðinga innanborðs. En það er hægt að gera kröfu um það, bæði í lagatexta og svo liggur það í hlutarins eðli. Ég hef ekki áhyggjur af því að ráðherrar heykist á því að skipa lögfræðinga eða þá sem hafa bestu þekkingu í þetta tiltekna verkefni. En að gera kröfu um að Hæstiréttur þurfi að koma að þessu máli eða Hafrannsóknastofnun — ég spyr: Gæti hv. þingmaður fallist á að hvorki Hafrannsóknastofnun né Hæstiréttur tilnefni menn í þessa nefnd?