151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

lax- og silungsveiði.

345. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Hérna sést nú kannski í ljós við endann á göngunum vegna þess að hér eru tvö efnisatriði uppi. Annars vegar er það að falla frá því að Hæstiréttur tilnefni einn nefndarmann og að sá skuli skipaður samkvæmt, eins og það heitir, ábendingu Hafrannsóknastofnunar. En það sem ég tel skipta miklu meira máli er að fallið er frá þeirri kröfu sem er í lögunum um að þessir tveir, þ.e. sá sem er tilnefndur af Hæstarétti og sá sem er skipaður án tilnefningar af ráðherra, uppfylli skilyrði héraðsdómara. Það er í mínum huga aðalatriðið. Og þegar við hv. þm. Sigurður Páll Jónsson erum að reyna að afstýra því slysi sem er að gerast frammi fyrir augunum á okkur, að ekki eigi að gera neinar kröfur í lögum um hæfni þeirra sem eiga að taka sæti í þessari matsnefnd, engar miðað við að núna er gerð sú krafa að tveir skuli uppfylla skilyrði til að vera héraðsdómarar, þá er það aðalatriði málsins.

Síðast þegar Alþingi tók ákvörðun í þessu máli var það um það að ráðherra skyldi skipa einn án tilnefningar þar sem áður voru skipaðir tveir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar. Ef lagt væri til að haldið yrði fast við hæfisskilyrði um (Gripið fram í.) að uppfylla skilyrði til að vera héraðsdómari þá er það í mínum huga ekkert aðalatriði að annar aðilinn sé endilega tilnefndur af Hæstarétti. Það mætti bara leggja það í hendur ráðherra að skipa tvo menn (Forseti hringir.) án tilnefningar en að þeir uppfylltu umrædd skilyrði. Það gæti náttúrlega verið skynsamleg lausn í þessu máli og kannski er hv. þingmaður að boða (Forseti hringir.) að meiri hlutinn gæti sætt sig við það. Ég myndi fyrir mitt leyti sætta mig við það.