151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Í gær lagði þingflokkur Pírata fram þingsályktunartillögu um alhliða úttekt á starfsemi vist- og meðferðarheimila á Íslandi. Þingsályktunartillagan felur í sér að forsætisráðherra verði gert að setja á fót sérstaka nefnd sem gera eigi rannsókn á öllum vist- og meðferðarheimilum barna og fatlaðra einstaklinga sem starfrækt hafa verið af ríkinu, sveitarfélögum, félagasamtökum og einkaaðilum svo langt aftur sem fyrirliggjandi gögn og upplýsingar gefa tilefni til. Í vetur komu fram frásagnir kvenna sem dvalið höfðu á vistheimilinu Laugalandi um líkamlegt og andlegt ofbeldi af hálfu forystufólks heimilisins og skort á viðbrögðum á sínum tíma, m.a. frá Barnaverndarstofu. Konurnar hafa ítrekað kallað eftir viðbrögðum frá félagsmálaráðuneytinu en við því hefur enn ekki verið orðið. Þetta er ekki í fyrsta skipti og alveg örugglega ekki í síðasta skipti sem fram koma ásakanir um ofbeldi forstöðufólks vist- og meðferðarheimila og skort á viðbrögðum frá þeim stofnunum sem áttu og eiga að grípa inn í aðstæður. Það hlýtur því að liggja í augum uppi að um kerfislægan vanda hefur verið að ræða gagnvart börnum og ungmennum í mjög svo viðkvæmri stöðu. Við megum heldur ekki gleyma því að valdaójafnvægið er gríðarlegt. Þolendur ofbeldis þurfa að stíga þung og stór skref til þess að koma fram með frásagnir sínar og félagsmálaráðuneytið og ríkisstjórnin ættu að hafa frumkvæði að því að skoða þennan kerfislæga vanda og gefa þeim sem dvalið hafa á vist- og meðferðarheimilum tækifæri til að koma fram með frásagnir sínar. Ef við höfum brugðist börnum og ungmennum þá þurfum við að horfast í augu við það og hlusta á þolendur. Því þætti mér sjálfsagt að forsætisráðuneytið ætti frumkvæðið að því að setja á laggirnar nefnd sem getur hafið frumkvæðisathuganir á vist- og meðferðarheimilum og tekið við ábendingum og kvörtunum vegna meðferðar sem þau urðu fyrir þegar þau voru vistuð á þeim heimilum.