151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[18:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Ég gat tekið undir flest í ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen og mig langar að segja það sama við hv. þm. Óla Björn Kárason. Það er margt í ræðu hans, og nánast allt, sem ég get tekið undir. Ég hef smá áhyggjur af orðalagi sem mér heyrðist koma fyrir í ræðu þingmannsins og það var að líklega væru þingmenn neyddir, eða eitthvað slíkt, til að samþykkja þetta frumvarp. Væntanlega þá í þeirri meiningu að það sé betra en ekkert, skárra en ekkert fyrir einkarekna fjölmiðla að fá aur. Það kann að vera að þegar kemur að lokum telji einhverjir þingmenn sig þurfa að grípa til slíks, að samþykkja þetta í neyð, en það mun ég ekki gera.

Hins vegar er áhugavert að velta því fyrir sér hvort ekki sé unnt að breyta þessu enn frekar, í það minnsta að afgreiða það með frumvarpi sem hv. þingmaður nefndi hér og hann er flutningsmaður að ásamt hv. þm. Brynjari Níelssyni, ef ég man rétt, þ.e. um að ganga í það að taka þá Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði eins og liggur fyrir í frumvarpi þeirra. Reyndar eru fleiri hugmyndir á borðinu, t.d. frumvarp um ráðstöfun útvarpsgjalds sem hv. Bergþór Ólason hefur lagt fram. Ég held að rétt sé að fjalla um þetta allt saman og reyna að afgreiða þá einhvers konar framtíðarmúsík varðandi þennan fíl inni í herberginu sem menn tala gjarnan um og er auðvitað Ríkisútvarpið sem er stærsti vandi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Ef við náum því í gegn að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði þá hverfa 2.000 milljónir eða slíkt úr rekstri þessa apparats. Hvað gerum við við kröfurnar sem koma þá um að bæta þetta upp með einhverjum hætti? Hvernig ætlum við að svara því? Því að sú krafa kemur um leið og hv. þingmaður mælir fyrir þessu máli.