151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:17]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka aftur orð mín um að Miðflokksmenn séu ekki miklir frumkvöðlar. Ég held þeir séu oft miklir frumkvöðlar og svolítið öðruvísi en við hin. En ég tek alveg undir það að ég teldi eðlilegt að þetta mál yrði tekið inn og raunverulega rætt með frumvarpi okkar hv. þm. Óla Björns Kárasonar um að taka RÚV af auglýsingamarkaði. Ég held að þingmenn komist ekkert hjá því að ræða það almennt hvernig menn sjá fyrir sér þennan markað til framtíðar. Við vitum að við óbreytt ástand, ef við gerum ekki neitt, mun sjálfstæði fjölmiðla bara lognast út af. Þetta verða í mesta lagi einhvers konar hlaðvörp eða einhverjir svona litlir miðlar. Það verða engir alvörumiðlar og það er ekki eitthvað sem við sjáum gagnast íslensku samfélagi. Við þurfum alvöru sjálfstæða fjölmiðla og það gengur ekki í þessu fyrirkomulagi. Við verður þá frekar að bæta RÚV upp þessar auglýsingatekjur með öðrum hætti ef við teljum að hlutur þess þurfi að vera óbreyttur, sem ég tel að vísu ekki að þurfi að vera. Tillaga Miðflokksmanna er alveg verð skoðunar, alveg eins og tillaga okkar hv. þm. Óla Björns Kárasonar, að taka þetta allt í einu lagi, taka alvöruskoðun á þessu. Við komumst ekkert hjá því. Við þurfum að hugsa um þennan fjölmiðlamarkað vegna þess að hann er mikilvægur. Menn tala um mikilvægi fjölmiðla. Ég er alveg sammála því að þeir eru mikilvægir en við getum bara ekki haft einn fjölmiðil, ríkisfjölmiðil, sem er sá eini sem við getum þá kallað alvörufjölmiðil á þessum markaði. Við getum það ekki.