151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

ný velferðarstefna fyrir aldraða.

720. mál
[23:20]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Einangraðri búblu — við erum giska einangruð, þessi búbla sem er öldrunarþjónustan á Íslandi. Það hefur harla lítið gerst í öldrunarmálum og þjónustu við eldri borgara í 30 ár, jafnvel lengur, miðað við þær samfélagsbreytingar sem orðið hafa, miðað við þau lífsgæði sem við áskiljum okkur flest þegnanna. Þingmaðurinn spyr hvort þetta taki mið af einhverjum starfshópi sem er að störfum akkúrat núna. Það höfum við ekki gert. Hér í þessari tillögu er verið að reyna að fanga upp það sem við þekkjum helst í kringum okkur, það sem búið er að ræða mikið um á Íslandi, og hreinlega er skorað á stjórnvöld að láta verkin tala en ekki bara að ræða málin og skipa einn nýjan starfshóp. Þeir hafa margir skilað ágætum verkefnum og ágætum afurðum, þessir starfshópar.

Hv. þingmaður las upp úr einhverju riti um reynslu þeirra á Akureyri, sem er alveg frábært (HBH: Þetta var í Vísi.) og er nýjung. (HBH: Já, það er nýjung.) Það er algerlega nýtt (HBH: Já.) og er í áttina en við þurfum auðvitað að gera miklu meira. Það er fagnaðarefni að Halldór S. Guðmundsson er orðinn verkefnastjóri í ráðuneytinu og við væntum mikils af framlagi hans og verkefnum.