151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

endursendingar hælisleitenda.

[13:28]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Íslensk stjórnvöld hafa ekki sent neinn í hæliskerfið á Grikklandi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar síðan árið 2010 og einungis hafa verið sendir einstaklingar sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi en öll mál eru samt sem áður skoðuð á einstaklingsbundnum grundvelli. Frá því í febrúar á síðasta ári hefur heldur enginn verið fluttur til Grikklands en nokkur hópur nú bíður flutnings þangað, allt stakir karlmenn sem eru með vernd í Grikklandi og nokkrir einstaklingar hafa fengið synjun og hafa farið sjálfviljugir aftur til Grikklands. Við búum í réttarríki og í því felst að við verðum öll að virða lagarammann sem Alþingi hefur samþykkt og við þingmenn komið okkur saman um á grundvelli lýðræðislegra sjónarmiða og þetta gildir jafnt um stofnanir ríkisins sem og alla einstaklinga sem staddir eru í landinu. Framkvæmd þessara mála er með þeim hætti að við endursendum nú einstaklinga sem eru komnir með vernd í Grikklandi en ekki þá sem eru í hæliskerfinu þar, eins og oft er ruglað saman. Viðkomandi einstaklingar hafa neitað, eins og fram hefur komið, að hafa samstarf við yfirvöld hér á landi á grundvelli framkvæmdar laga og reglna sem hvíla á þeim lagaramma sem Alþingi hefur sett.

Það er rétt hjá hv. þingmanni, það eru veikir innviðir í Grikklandi sem gera það að verkum að einstaklingum hefur reynst erfitt að koma undir sig fótunum en á sama tíma eru 26 milljónir einstaklinga á flótta víða í heiminum og það er ekkert land sem hefur hætt endursendingum alfarið til Grikklands. Ég tel rétt að árétta það að þetta flóttamannakerfi er neyðarkerfi og er ætlað fyrir fólk sem óttast um líf sitt og frelsi og er ekki hugsað fyrir þá sem þegar hafa fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki (Forseti hringir.) og við eigum frekar að ræða það hvort við viljum ekki fara að skoða aukin atvinnuleyfi fyrir fólk utan Evrópu (Forseti hringir.) sem vill koma hér og bæta lífskjör sín og starfa í íslensku samfélagi.