151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[13:48]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessum stóru málefnum sem eru kerfislæg. Þess vegna segi ég: Á meðan við spólum í sama farinu með því að ræða alltaf bara einstök mál þá komumst við ekkert áfram, því að við þurfum kerfisbreytingar til að ná raunverulegum árangri. Þess vegna setti ég niður hóp í upphafi þessa kjörtímabils til að kanna heildstætt hvaða þættir hefðu áhrif á það traust sem almenningur ber til kjörinna fulltrúa og handhafa framkvæmdarvalds í landinu. Það er flókið viðfangsefni því að þetta er ekki vinsældakeppni, heldur snýst þetta um traust innviðanna og traust undirstaðnanna í samfélagi okkar. Þessi starfshópur skilaði skýrslu þar sem hann gerði tillögur að aðgerðum sem skiptast í átta meginsvið og 25 einstakar tillögur. Mér fundust þetta góðar, vel ígrundaðar tillögur. Og þó að þessi vegferð hafi kannski tekið lengri tíma en ella, m.a. vegna heimsfaraldurs og fleira, má segja að heilt á litið hafi gengið vel að innleiða þær tillögur. Markmiðum stjórnvalda hefur verið náð, a.m.k. á fjórum af þeim átta áherslusviðum sem tilgreind voru í tillögum starfshópsins og munar þar mestu um þrjú frumvörp til laga sem samþykkt voru á Alþingi:

Í fyrsta lagi frumvarp til laga um breytingar á upplýsingalögum, sem taka nú til löggjafar og dómsvalds en ekki eingöngu framkvæmdarvalds, sem er mál sem við höfum rætt lengi. Kerfisbreyting sem skilar framförum. Sett voru lögbundin viðmið um afgreiðslutíma úrskurðarnefndar um upplýsingamál og komið á fót hlutverki ráðgjafa um upplýsingarétt almennings.

Varnir gegn hagsmunaárekstrum, önnur kerfisbreyting sem kemur okkur áfram og kemur til móts við tillögur um samræmdar reglur um hagsmunaskráningu. Þetta er fyrsta lagasetning sinnar tegundar hér á landi. Ég veit að við eigum eftir að draga ýmsa lærdóma af því hvernig gengur að innleiða þessa lagabreytingu. En hver er tilgangurinn annar en að skapa traust og tryggja að æðstu handhafar framkvæmdarvalds vinni störf sín í þágu almennings af heilindum? Ég veit líka að það verður ástæða til að endurskoða þetta þegar komin er einhver reynsla á framkvæmdina. Ég held að það sé þess vegna mjög mikilvægt að muna að þegar við setjum lög er verkinu ekki lokið heldur skiptir máli hvernig lögin eru framkvæmd og hvaða árangri þau skila. Þarna er líka komið til móts við tillögur starfshóps sem tengjast hagsmunavörðum, starfsvali æðstu embættismanna eftir að þeir láta af störfum og samskiptum stjórnvalda við hagsmunaaðila. Það skiptir mjög miklu máli líka að fylgjast mjög vel með framkvæmd þeirra laga.

Þriðja lagasetningin er svo um vernd uppljóstrara. Sérstök heildarlög um efnið tóku gildi 1. janúar og ég er mjög ánægð með þá kerfisbreytingu. OECD hefur nú gefið umsögn sína, vinnuhópur OECD um varnir gegn mútugreiðslum, og hrósar íslenskum stjórnvöldum sérstaklega fyrir þessa löggjöf. En aftur, það er mjög mikilvægt að við fylgjumst vel með framkvæmd laganna og að þau séu vel kynnt.

Afgerandi skref hafa því verið tekin. Undirbúningsvinna er hafin á ýmsum sviðum, m.a. hvað varðar endurskoðun siðareglna þar sem ætlunin er að fara í viðhorfskönnun meðal starfsfólks Stjórnarráðsins um slíkar reglur og reyna þá að efla ákveðið samráðsferli hjá þeim sem eiga að vera undirorpnir þeim siðareglum. Vinna við endurskoðun á siðareglum er svo samofin því verkefni að efla fræðslu og gagnrýna umræðu um siðferðileg efni. Þar erum við sömuleiðis að efna til aukinnar fræðslu um siðareglur og hagsmunaárekstra, upplýsingarétt almennings og tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna. Hvert er markmiðið? Jú, að festa í sessi gagnrýna umræðu um siðferði og fagmennsku í opinberum störfum. Þetta er hluti af þeirri kerfisbreytingu sem þarf að verða.

Bent hefur verið á af Siðfræðistofnun HÍ, og það tengist því sem hv. þingmaður nefnir hér, að stjórnvöld eigi að marka skýra stefnu um lýðræðislegt samráð, þ.e. að það sé skýrt hvernig ákvarðanir eru teknar, hverjir hafi verið kallaðir til samráðs og það sé sérstök skylda hjá stjórnvöldum að kalla fleiri til samráðs. Ég nefni í því samhengi rökræðukönnun sem haldin var hér í nóvember 2019 um breytingar á stjórnarskrá. Ég heyri að margir þingmenn eru ekki endilega sáttir við þær tillögur sem komu út úr því samráðsferli, sem sannanlega var samráðsferli við almenning í landinu. Ég held að við eigum að nýta slíka aðferðafræði miklu oftar. En þá þurfum við líka að spyrja okkur: Eru þingmenn reiðubúnir að fylgja niðurstöðum sem koma úr slíku samráði? Það getur brugðið til beggja vona með það. Auðvitað eru þingmenn fyrst og fremst bundnir af sannfæringu sinni.

Það sem ég er að reyna að segja hér er að þetta eru ekki átaksverkefni, þetta gerist hægt og bítandi og það skiptir máli — hv. þingmaður nefndi að traust á Alþingi hefði aukist, væri núna 34%. Þingið vermir fjórða neðsta sætið yfir þær stofnanir sem mældar eru í þessari könnun. En það breytir því ekki að traustið hefur vaxið um 16 prósentustig á tveimur árum, þ.e. um helming, þannig að það kann að vera nokkuð góður árangur. En samt er það auðvitað ekki ásættanlegt að Alþingi sé í fjórða neðsta sæti þegar við mælum traust. Auðvitað geta traustskannanir verið að einhverju leyti háðar dægursveiflum en það er hins vegar mín bjargfasta trú að þær aðgerðir sem við höfum gripið til séu allar fallnar til þess að auka þetta traust.

Ég kem aðeins nánar að alþjóðastofnunum og samskiptum okkar við þær í þessu verkefni hér í lokin eftir að ég hef hlýtt á umræður.