151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[13:58]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir hrun mældist traust kjósenda á þingi og stjórnvöldum með því mesta sem gerist en eftir hrun með því minnsta sem gerist. Hvort tveggja kannski að ósekju, of mikið traust fyrir hrun og of lítið traust eftir hrun. Það hefur svo mjakast upp, þetta traust, eins og eðlilegt er, en það er enn þá hættulega lágt. Hvað er annars traust? Það er sú tilfinning að ástæða sé til að ætla að einhver manneskja eða stofnun eða stjórnmálaflokkur standi við orð sín, láti ekki stjórnast af annarlegum hvötum, starfi í góðri trú. Þegar litið er á þá íslensku stjórnmálahefð að ganga óbundinn frá kosningum eftir að hafa skuldbundið sig á ýmsan hátt fyrir kosningar en rísa svo upp eftir kosninganóttina eins og einherji í Valhöll, með öllu ósnortinn af skuldbindingum sínum um ríkisstjórnarsamstarf, þá verður ekki sagt að kjósendur hafi ríka ástæðu til að treysta íslenskum stjórnmálamönnum eða íslensku stjórnmálakerfi sérstaklega.

Að undanförnu, herra forseti, höfum við fengið verðmæta innsýn í valdakerfi landsins. Við höfum séð menn sem komist hafa til óheyrilegs auðs og valda með aðgangi að auðlindum þjóðarinnar. Við höfum séð viðhorf þessara manna til eftirlitsstofnana sem starfa í almannaþágu, Seðlabankans og frjálsra fjölmiðla og við höfum séð hvernig þeir ráðast að einstaklingum og grafa undan stofnunum. Landsmenn eiga skilið stjórnvöld sem hafa bein í nefinu gagnvart slíkum öflum og standa vörð um hagsmuni almennings gagnvart þeim. Því miður bendir fátt til þess að á það sé að treysta.