151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[14:21]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því sem ég gerði ekki áðan og það er að þakka fyrir þessa umræðu. Ég ætla að lýsa þeirri von minni að hún muni hafa áhrif. Slík bjartsýnismanneskja er ég. Síðan ætla ég að segja það sem ég sagði í upphafi fyrri ræðu minnar: Staða fjölmiðla er spegill á stöðu lýðræðis í hverju samfélagi. Öflugt lýðræði er eitt sterkasta vopnið sem við höfum gegn spillingu í samfélaginu. Það er ekki mikið flóknara. Það sem við gerum hér er að við höfum bitlaust fjölmiðlafrumvarp sem líklega verður tekið til afgreiðslu í dag, frumvarp sem er búið að velkjast í meðförum ríkisstjórnarinnar í fjögur ár. Við búum við bitlaust auðlindaákvæði sem verður eða verður ekki lagt aftur fyrir Alþingi fyrir lok þessa kjörtímabils. Það sem við höfum er þögn stjórnvalda um margumbeðna skýrslu um framferði og viðskiptahætti útgerðarfyrirtækja okkar í viðskiptum og umsýslu með aflaheimildir í þróunarlöndum. Það sem við höfum er þögn stjórnvalda um umbeðna skýrslu Alþingis, margítrekaða, um ítök útgerðarrisa í íslensku samfélagi, ekki bara í sjávarútvegi heldur í íslensku atvinnulífi, í íslensku samfélagi, þar með talið í fjölmiðlum. Og hver er þá staðan sem við blasir? Sú staða er að hér á sér stað skæruhernaður útgerðarrisa sem ver sérhagsmuni sína gegn íslenskum fjölmiðlum, og æpandi þögn stjórnvalda. Þetta er það sem við erum að kljást við. (Forseti hringir.) Þetta búum við við núna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)