151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[14:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Svo ég byrji á hv. þingmönnum Bryndísi Haraldsdóttur og Brynjari Níelssyni. Hér er málefnaleg gagnrýni en ekki upphrópun því að frá Sjálfstæðisflokknum koma nær öll siðferðisleg álitamál. Mér finnst það góð ástæða til þess að halda völdum frá þeim flokki. Þetta er augljós lausn á augljósum vanda, þetta er einföld baunatalning.

Hæstv. forsætisráðherra. Í staðinn fyrir einmitt að tækla kerfisvandann þá sýna þessi einstöku álitamál okkur að á meðan við erum ekki að ná árangri með þau er augljóst að við höfum ekki náð að leysa kerfislæga vandann. Við þurfum að gera hvort tveggja. Stundum þurfa stjórnvöld að spyrja hvort aðgerðir þeirra uppfylli væntingar og kröfur og ég velti því fyrir mér hvar sú spurning sé og hverjir voru spurðir því við vinnum okkur einungis inn traust með samvinnu við fólkið sem við viljum öðlast traust hjá, með því að hlusta.

Lokaspurningin mín er því: Er forsætisráðherra búin að spyrja fólkið í landinu hvað þarf til til að öðlast traust þess? Það skiptir nefnilega máli að aðgerðirnar séu ekki bara tékklisti sem þarf að fylla inn í. Það skiptir máli að það virki. Hér vísaði forsætisráðherra í rökræðukönnun í fyrri ræðu og þá vísa ég í umsögn Jóns Ólafssonar sem var formaður nefndar um eflingu trausts á stjórnvöldum og stjórnsýslunni og sá um að skipuleggja rökræðurnar meðal annarra. Þar segir hann, um frumvarp til breytinga á stjórnarskrá:

„Í þeim drögum sem nú liggja fyrir á samráðsgátt Stjórnarráðsins er nánast ekkert reynt að tengja tillögur, röksemdir og útskýringar við almenningssamráðið, vísanir til einstakra þátta þess eru tilviljanakenndar og á stöku stað villandi. Ekki er reynt með neinum kerfisbundnum hætti að byggja á samráðinu þegar svo vill til að niðurstöður þess eru í samræmi við frumvarpsdrögin og engin tilraun er gerð til að skýra frávik þegar í drögunum eru farnar aðrar leiðir en samráðið gefur til kynna að almenningur styðji.“

Forsætisráðherra, forseti: Hér reynir á að breyta í þágu almennings og samfélagsins en ekki ákveðinna hagsmunaafla.