151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

breyting á þingsályktun nr. 40/150 um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020--2024.

802. mál
[15:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir andsvarið. Ég held að hluti af þeirri tilfinningu okkar nefndarmanna að það fari ekki saman hljóð og mynd hvað varðar þessa yfirfærslu á rekstri alþjóðaflugvallanna tveggja, Egilsstaða- og Akureyrarflugvallar, við skulum bara einbeita okkur á Egilsstaðaflugvelli núna, sé að það gerir það ekki. Það fer ekki saman hljóð og mynd í þessu máli. Hæstv. samgönguráðherra hefur talað á þeim nótum allt kjörtímabilið meira og minna að nú sé handan við hornið að Isavia taki yfir reksturinn og á auðvitað miklar eignir á þessum velli. En síðan þegar rætt er við Isavia þá virðist allt vera mun óljósara og óskýrari fyrirmæli í þeim efnum þrátt fyrir til að mynda samkomulag sem var undirritað, ég man ekki hvenær árs í fyrra, í byrjun árs væntanlega, þess efnis að þetta yrði raunin, að Isavia tæki yfir reksturinn. Við heyrum það bara á fundum nefndarinnar að ráðuneytið annars vegar og Isavia hins vegar líta þetta mjög ólíkum augum, svo vægt sé til orða tekið, varðandi það hvort forsendur séu óbreyttar og með hvaða hætti þetta getur gerst hér eftir. Ég gagnrýni það mjög að ráðuneyti málaflokksins sé svolítið tekið með buxurnar á hælunum í þessum efnum vegna þess að mér hefur þótt tónn Isavia, þegar fyrirtækið eða fulltrúar þess hafa komið fyrir nefndina, ávallt vera á þeim nótum að það væri ekki búið að leiða það í jörðu með hvaða hætti hlutirnir myndu gerast. Og kannski það helst sem hönd á festi var þetta samkomulag, ég man ekki hvaða form var á því en við skulum kalla það samkomulag eða sameiginlegt minnisblað ráðuneytis og Isavia um þessa yfirfærslu. En það er alveg augljóst að Isavia lítur svo á að það mál sé í fullkominni upplausn núna í kjölfar þess ástands sem hefur skapast í tengslum við Covid.

Til að svara spurningunni varðandi yfirlagningu á brautinni, sem sagt malbikun brautarinnar, þá hefur það í mínum huga verið alveg augljóst allan þann tíma sem ég hef setið í umhverfis- og samgöngunefnd og út frá þeim skilaboðum og svörum sem þangað hafa borist að þetta væri allt að því neyðaraðgerð, að leggja yfir malbik á Egilsstaðaflugvelli. Það yrði ekki geymt og bara það að geyma það núna síðasta ár, ef svo má segja, hafi falið í sér mikla áhættu.