151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:53]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. framsögumanni nefndarinnar fyrir ágæta yfirferð. Þetta var löng og ítarleg ræða þannig að það verður kannski erfitt að kjarna þetta. En mig langar samt að spyrja spurningar. Það blasir við að fyrir hremmingar sem fylgdu Covid var þensla orðin of mikil í samfélaginu, ríkisútgjöld höfðu þanist út og við því var ekki brugðist á þeim tíma þrátt fyrir aðvaranir. Í umsögn fjármálaráðs segir, með leyfi forseta:

„Á þensluskeiðinu fyrir kórónuveirufaraldurinn var losað um beltið og fyrirferð hins opinbera jókst með þeim hætti að undirliggjandi afkoman er orðin neikvæð.“

Ef ég man rétt varð 70 milljarða viðsnúningur samkvæmt ríkisreikningi 2019. Hefði ekki verið gott að eiga þá 70 milljarða núna en ekki verja því öllu í að þenja ríkið út?