151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:56]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns í fyrri andsvörum að hann fullyrti að það væri ekki stefna nokkurs manns að hafa atvinnuleysisstig hátt. Ég tek hjartanlega undir það með honum, það er auðvitað ekki svo. Engu að síður gerir framreikningurinn í fjármálaáætluninni ráð fyrir því að atvinnuleysisstigið verði viðvarandi 4–5% undir lok tímabilsins. Það hlýtur að vera býsna alvarlegt að setja fram fjármálastefnu sem gerir ráð fyrir því að sú verði raunin. Það er sérstaklega merkilegt í ljósi þess að það hefur komið skýrt fram að sitjandi ríkisstjórn ætlar sér að sitja áfram. Það er fyrsti kostur, segja allir foringjar ríkisstjórnarflokkanna. Það er því ekki hægt að líta öðruvísi á en þannig að þessi fjármálastefna sé stefna þeirrar komandi ríkisstjórnar. (Forseti hringir.) Þess vegna skýtur skökku við að metnaðurinn sé ekki meiri en raun ber vitni.