151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að draga þetta hér fram. Við erum öll sammála um að þetta er atvinnuleysisstig sem við erum ekki vön og eigum ekki að sætta okkur við. Við verðum að gera greinarmun á hagspá og stefnu og þetta er sannarlega ekki hluti af stefnu stjórnvalda og á aldrei að vera og má ekki vera. Blessunarlega höfum við flest alist upp við það í gegnum tíðina að geta fengið vinnu; það er algjört grundvallaratriði fyrir daglegt líf einstaklinga og fjölskyldna að hafa vinnu og framfærslu. Ég ætla ekki að dvelja við það. En þetta er, held ég, bara stóra verkefnið fram undan, okkar allra, að tryggja að ekki verði langtímaatvinnuleysi. Það vekur ugg að horfa til þess, (Forseti hringir.) miðað við spárnar, að 2023 verði slakinn farinn og þá verði 5% atvinnuleysi. (Forseti hringir.) Þá vona ég að allar þær aðgerðir sem beinst hafa að nýsköpun, rannsóknum og þróun — að nýsköpunarstefnan, klasastefnan muni skila sér.