151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir hans yfirgripsmiklu framsögu hér um fjármálaáætlun. Ég hef ekki tíma til að segja mikið meira en það að mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvort hann átti sig á því hvað hann var að tala um þegar hann sagði að frítekjumark hefði verið hækkað í 100.000 kr. Staðreyndin er sú að frítekjumarkið var 109.000 kr. í kringum 2009. Frítekjumark er nákvæmlega það sem einstaklingur má vinna sér inn án þess að vera skertur. Það var sett niður í 0 kr. og átti að skerða alveg frá 0 kr. fyrir síðustu kosningar en ríkisstjórnin, eða réttara sagt hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson og fleiri, var gerð burtræk með það. Nú er það 100.000 kr. sem sagt 9.000 kr. minna en áður var. Síðan er til annað frítekjumark, 25.000 kr. vegna greiðslna úr lífeyrissjóði. Eftir hverja einustu krónu sem lífeyrisþegi vinnur sér inn umfram þessar 25.000 kr. þá er hann skertur um hvorki meira né minna en tæplega 80%. Ég spyr hv. þingmann: Finnst honum þetta eðlilegt og er eðlilegt að við skulum ekki gera betur í þessari fjármálaáætlun til næstu fimm ára til þess einmitt að hækka frítekjumark og frítekjumörk?