151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og tek heils hugar undir með honum. Þetta kemur inn á það að vægi ferðaþjónustunnar í útflutningstekjum er mikið og þess vegna fundum við fyrir skarpari niðursveiflu en víða annars staðar. Mögulega gætum við líka upplifað skarpari uppsveiflu sem er ekki teiknuð inn í fjármálaáætlun. Það kemur í ljós með efnahagsframvindunni og því hvernig bólusetningum vindur fram o.s.frv.

Ég held að hv. þingmaður hafi hitt naglann á höfuðið í sinni ræðu með því að tala um nýsköpun, rannsóknir, þróun, sprotana, frumkvöðlana, þekkingargreinarnar. Vægi þessara greina í útflutningstekjum er mjög mikilvægt til framtíðar og það dragi úr vægi ferðaþjónustu að því leytinu til, án þess að við gefum nokkuð eftir í því að byggja upp öfluga ferðaþjónustu. Það held ég að sé mjög mikilvægur hluti af því verkefni sem fram undan er til lengri tíma.

Hv. þingmaður kom inn á tryggingagjaldið sem er stór tekjuliður ríkissjóðs. Þetta eru tekjur fyrir ríkissjóð og þetta er kostnaður fyrir atvinnulífið. Það hefur verið stöðugur þrýstingur lengi vel að lækka tryggingagjaldið og það er skiljanlegt. Þetta er kostnaður fyrir atvinnulífið, en þetta er hins vegar mikilvægur gjaldstofn sem fjármagnar mjög mikilvæga þætti eins og lífeyris- og slysatryggingar, Fæðingarorlofssjóðinn o.s.frv. og skiptist í tvo þætti. Ég ætla bara að vekja athygli á mjög vandaðri rammagrein í þessari áætlun þar sem boðað er að til þess að tryggingagjaldið geti skilað hlutverki sínu með gagnsæjum, hagkvæmum og sjálfbærum hætti þurfi að fara fram endurskoðun á þessum stofnum.