151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta innlegg með tryggingagjaldið vegna þess að það er hárrétt hjá hv. þingmanni, það þarf að fara að skoða stofna gjaldsins. Það er þáttur í því að mínu mati að reyna að finna leiðir til þess að lækka álögur á fyrirtækin vegna þess að þau skipta okkur verulegu máli núna, að þau hafi allt það svigrúm sem þau geta haft til að ráða fólk í vinnu. Það er lykillinn að því að við komum okkur af stað og vinnum gegn þeirri vá sem atvinnuleysi er. Fyrir utan það að atvinnuleysi veldur náttúrlega fjölskyldum sálrænum vanda og hefur margvíslegar afleiðingar í för með sér sem oft og tíðum eru ekki ræddar. Það kostar ríkissjóð líka verulegar upphæðir. Það er því til margs að vinna að veita fyrirtækjunum alla þá aðstoð sem við getum til þess að þau nái að styrkja sig í þessu árferði og ráða fólk í vinnu.

Ég nefndi erlenda fjárfestingu, að við greiðum götu erlendrar fjárfestingar í landinu. Það er margt sem má bæta í því ferli, að gera okkur meira aðlaðandi sem land til þess að hingað komi erlend fjárfesting. Ég nefndi hugverkaiðnaðinn sem er mjög vaxandi iðnaður, t.d. á Írlandi. Hér er ákveðinn vísir að hugverkaiðnaði og gagnaverum o.s.frv. en það er mikil samkeppni sem ríkir meðal annarra þjóða þegar kemur að því að fá þessi fyrirtæki hingað inn. En við eigum líka miklar auðlindir. Við höfum þessa grænu orku sem verður sífellt verðmætari og annað slíkt. Þetta allt saman eru mikil tækifæri sem við höfum til þess að laða að okkur stöndug fyrirtæki sem geta ráðið fólk í vinnu. Allt skiptir þetta máli og við eigum öll að vinna að þessu sama markmiði, (Forseti hringir.) að gera umhverfið aðlaðandi fyrir fyrirtækin þannig að þau geti ráðið fólk til vinnu og greitt góð laun.