151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugavert svar. Í seinna andsvari mínu ætla ég að koma inn á umhverfismál. Í raun er eina stefnubreytingin í þessari fjármálaáætlun miðað við fyrri fjármálaáætlun þessi eini milljarður í viðbót til næstu tíu ára til að mæta stefnubreytingu um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda yfir í 55% samdrátt eins og samstarfsþjóðir okkar í Evrópu hafa tekið stefnu um og við fylgjum þeim þar eftir. Í fjármálaáætluninni er talað um að það sé settur milljarður á ári til að ná markmiðum um 55% samdrátt í losun. Þegar maður skoðar hins vegar útskýringarnar á því hvað það kostar að ná 40% samdrætti þá fær maður út að það kosti um 1 milljarð að ná 4% samdrætti, en fjármagnið sem fer í loftslagsmálin á tímabili fjármálaáætlunarinnar að meðaltali til þess að ná markmiði um 40% samdrátt er um 10 milljarðar á ári. Nú á að bæta við 1 milljarði í viðbót til að ná 15 prósentustiga aukningu í samdrætti. Þá veltir maður fyrir sér forgangsröðun eftir árangri o.s.frv. og fær engan botn í það hvernig er hægt að kaupa þann samdrátt fyrir bara milljarð á ári. Af hverju byrjuðum við ekki á því? Eða vantar fjármagn til að ná þessum samdrætti? Hvort er það?