151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:53]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það er margt sem hefur gengið á í samfélaginu undanfarin misseri sem var erfitt að takast á við, en sem betur fer erum við vonandi farin að sjá fyrir endann á kórónuveirunni og þeim skaða sem hún hefur valdið og erfiðum viðfangsefnum. En það blasir auðvitað við okkur að fyrir höndum er uppbyggingarstarf. Við þurfum að koma öllu atvinnulífinu á hreyfingu. Við þurfum að koma þúsundum til starfa og við þurfum að tryggja efnahagslegan stöðugleika og nauðsynlega grunnþjónustu og reyna að bæta lífskjör íbúa landsins til frambúðar. Ekki er hægt að líta á fjármálaáætlunina sem við erum að ræða öðruvísi en svo að hún sé stefnuplagg ríkisstjórnarinnar. Undan því er ekki hægt að víkjast með því að segja að ríkisstjórnin hafi valið þá leið að fara í einfaldan framreikning á hlutunum. Lögin um opinber fjármál gera einu sinni ráð fyrir því að settar séu fram áætlanir til langs tíma. Því er borið við að kosningar séu á næsta leiti og móta þurfi nýja stefnu og leggja fram nýjar áætlanir. Það er í sjálfu sér allt gott og blessað, en þá er það mikill ágalli á lögunum um opinber fjárlög að ætla yfirleitt ríkisstjórnum að áætla fram yfir sitt eigið kjörtímabil. Samkvæmt þeirri kenningu að hér sé bara um framreikning að ræða og ekki stefnuyfirlýsingu þá ætti áætlun, í hvert skipti sem hún er lögð fram, bara að ná til loka kjörtímabils. En það er alls ekki hugsunin í lögunum um opinber fjármál. Það liggur skýrt fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir, a.m.k. talsmenn þeirra eða forystumenn, hafa allir lýst því yfir að auðvitað sé það fyrsti kostur að halda áfram núverandi ríkisstjórnarsamstarfi ef til þess fæst umboð eða aðstæður verða þannig að þeir hafa möguleika til þess. Þess vegna er óhjákvæmilegt að horfa á áætlunina þeim augum. Hér er lagður rammi fram í tímann, það blasir við öllum sem hafa augu og eyru.

Forseti. Mig langar til að byrja á að ræða um atvinnuleysi. Í tölunum í fjármálaáætluninni kemur fram að atvinnuleysi verði upp undir 5% í lok áætlunartímabilsins. Það er ekkert smáræði. Rétt er að staldra við þetta því að það þýðir að í lok áætlunartímabilsins verði u.þ.b. 10.000 einstaklingar atvinnulausir að jafnaði. Það eru u.þ.b. 3.000 fleiri en við eigum að venjast. Þetta er það sem blasir við eftir fimm ár. Því fylgir auðvitað gríðarlegur kostnaður fyrir ríkissjóð. Vinnumarkaðsaðgerðir og atvinnuleysisbætur undir lok tímabilsins eru metnar á 45 milljarða kr. Það er u.þ.b. tvöfalt meira en þegar árferði er venjulegt. Það eru hvorki meira né minna en u.þ.b. 500.000 tapaðar vinnustundir í hverjum einasta mánuði. Það er kannski ekki það alvarlegasta, það alvarlegasta er að þúsundir einstaklinga og fjölskyldna munu búa við skertar tekjur og glíma við önnur vandamál, fjárhagsleg, líkamleg og andleg, sem fylgja langvarandi atvinnuleysi. Við þessu verður að bregðast með miklu kraftmeiri hætti en birtist í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Atvinnuleysi hér á landi er í hæstu hæðum og það hefur aukist hlutfallslega meira hér en í nokkru öðru samanburðarlandi í Vestur-Evrópu. Það er ekki til að hreykja sér af. Á sama tíma er atvinnuþátttaka í sögulegri lægð. Að baki þeim tölum er fjöldi fólks sem ekki er í vinnu og ekki í virkri atvinnuleit, það eru u.þ.b. 50.000 manns á aldrinum 60–74 ára. Þörfum og vanda þessa fólks þarf að mæta með virkniúrræðum og aðgerðum sem gera fólki kleift að stíga aftur út á vinnumarkaðinn eftir langa fjarveru. Þess vegna er atvinnusköpun lykilatriði. Ný ríkisstjórn verður að rækta umhverfi sem ýtir undir náttúrulega fjölgun starfa á almennum vinnumarkaði til að sporna gegn þeirri ósjálfbæru þróun sem birtist í fjármálaáætluninni. Við verðum að gera fyrirtækjum auðveldara að skapa störf með því að lækka atvinnutengdar álögur. Við þurfum fleiri störf í landsbyggðunum, bæði opinber og í einkageiranum. Við þurfum að stuðla að auknum hagvexti með aukinni framleiðni. Það gerum við með því að þora að fjárfesta í grænni tækni, menntun og innviðum, með hvötum til nýsköpunar og með ábyrgri hagstjórn, og það gerum við ekki síst með því að gera allt sem unnt er til að tryggja gengisstöðugleika. Í því samhengi höfum við í Viðreisn ítrekað bent á að tímabært sé að gera alvöru úr því að binda krónuna við evru til langs tíma með aðild að myntbandalagi Evrópusambandsins, ganga til samninga við Evrópusambandið um það. Síðar munum við ganga í Evrópusambandið sjálft í fyllingu tímans. Sveiflur í krónunni eru mjög dýrkeyptar fyrir íbúa landsins og þær vinna með beinum hætti gegn hagvexti og atvinnusköpun.

Herra forseti. Lengi hefur blasað við að margvíslegir innviðir í samfélaginu þarfnast endurnýjunar og byggja þarf nýja. Á það hefur margsinnis verið bent og lagðar fram ítarlegar skýrslur, m.a. af Samtökum iðnaðarins. Að þessum verkefnum þarf að vinna jafnt og þétt og gæta þess að þau valdi ekki aukinni þenslu þegar vel árar en samdráttur á því sviði ýki ekki niðursveiflurnar. Þetta er auðvitað ekki vandalaust en það er gerlegt. Huga þarf miklu betur að stefnumótun, undirbúningi verkefna og koma þeim af framkvæmdastigi þannig að á hverjum tíma séu til næg verkefni sem eru tilbúin til útboðs með skömmum fyrirvara. Því miður hefur ríkisstjórnin verið gripin í bólinu í þessum efnum. Hún átti lítið sem ekkert tilbúið í handraðanum og þess vegna hafa orðið tafir á mikilvægum verkefnum sem hefði verið upplagt að geta ráðist í með skömmum fyrirvara þegar kórónuveiran nam hér land. Fjármálaráð hefur gert þetta að sérstöku umfjöllunaratriði í umsögnum sínum um fjármálaáætlun. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Eins og áður hefur verið bent á í þessu áliti tekur tíma að ráðast í fjárfestingar og því erfitt að beita þeim til sveiflujöfnunar. Gildir það jafnt fyrir sveitarfélögin sem ríkið.“

Enn fremur segir fjármálaráð, með leyfi forseta:

„Í framlagðri áætlun er rætt um mikilvægi fjárfestingar og hvernig innviðafjárfesting hins opinbera skilar sér til framtíðar í formi aukinnar framleiðslugetu. Almennt er litið á fjárfestingu sem heppilega ráðstöfun opinbers fjármagns þegar slaki er í hagkerfinu og framleiðsluþættir vannýttir. Margföldunaráhrif slíkra fjárfestinga í samdrætti eru talin hærri en margföldunaráhrif margra annarra aðgerða. Í grein Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er rætt um að virkni fjárfestingarmargfaldara sé einnig langvinnari en annarra margfaldara.“

Ég er enn að vitna til fjármálaráðs:

„Fjármálaráð hefur ítrekað kallað eftir því að gagnsæi hvað varðar skýra forgangsröðun fjárfestingarkosta og arðsemisútreikninga þeirra hérlendis sé aukið. Fjármögnun arðbærra fjárfestinga með lántöku er skynsamleg sé arðsemin meiri en fjármagnskostnaðurinn. Arðsamar fjárfestingar skila þjóðarbúinu til komandi kynslóða í betra ástandi heldur en ef í þær hefði ekki verið ráðist. Hér skiptir miklu hvers konar fjárfestingar er ráðist í og hvenær.

Það myndi auka gagnsæi að sjá meiri umfjöllun um vænta verðmætasköpun þeirra fjárfestinga sem lagt verður í. Í núverandi árferði má þess vænta að hluti af forgangsröðun felist í þeim áhrifum sem einstök verkefna hafa á þær atvinnugreinar, þau landssvæði og þá hópa sem verst hafa orðið úti. Tímasetningar fjárfestinga skipta hér einnig miklu máli. Ákvarðanir stjórnvalda til að bregðast við með aðgerðum í opinberum fjármálum taka oft tíma og því er hætta á að þær komi of seint og vinni jafnvel gegn tilætluðum markmiðum. Þetta endurspeglast í umræðu um fjárfestingastig hins opinbera á síðasta ári. Í rammagrein 10 í áætlun eru rædd ýmis vandkvæði er snúa að töfum í að hefja fjárfestingu eftir að fjárheimildir hafa fengist. Sýnt er að á síðustu árum hafi ónýttar fjárheimildir til fjárfestinga verið 25–30% af samþykktum upphæðum. Slíkar tafir eru til þess fallnar að veikja áhrif fjárfestingar sem hagstjórnarviðbragðs. Jákvætt er að sjá að boðaðar eru umbætur á þessu ferli.“

Herra forseti. Þetta er býsna ákveðin og hörð gagnrýni. Ég vil vekja sérstaka athygli á síðustu setningunni í þeim kafla sem ég vitnaði til. Jákvætt er að sjá að boðaðar eru umbætur á þessu ferli. Það er nefnilega það. Staðreyndin er hins vegar sú að þessar umbætur hafa margsinnis verið boðaðar en ekkert hefur gerst. Í tvígang hafa hins vegar verið boðaðar slíkar breytingar í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, á þessu og síðasta þingi, en ekkert slíkt þingmál hefur litið dagsins ljós. Ég held því miður að fjármálaráð muni enn um sinn þurfa að láta við það sitja að fagna boðuðum breytingum sem aldrei virðast ætla að koma.

Herra forseti. Ekki verður hjá því komist í þessu samhengi að minnast á þingsályktun Viðreisnar sem Alþingi samþykkti einróma þann 18. apríl árið 2018 sem fjallaði um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að útfæra stefnumörkun með það að markmiði að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga allt frá hugmyndastigi til framkvæmda og út ætlaðan líftíma þeirra. Ráðherra skipi fimm manna starfshóp til þess að stofna til formlegs samstarfsvettvangs stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélags um gerð rammaáætlana til þriggja ára í senn til þess að byggja upp þekkingu og færni og efla rannsóknir á sviði gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.“

Þetta átti að gera fyrir 1. nóvember 2018. Ekkert hefur spurst til málsins eftir að Alþingi samþykkti ályktunina. Ég er fullkomlega sannfærður um að það hefði óneitanlega getað hjálpað ríkisstjórninni að hafa sinnt skyldu sinni og farið að ályktun Alþingis. Þá er hugsanlegt að hún hefði verið betur undirbúin en raun ber vitni.

Herra forseti. Fjármál hins opinbera skipta okkur öll miklu máli og þeim má í stórum dráttum skipta í tvennt. Annars vegar segja þau til um hve mikilla tekna skal aflað, hvernig og af hverjum, en ekki má gleyma þætti þeirra skulda sem stofnað er til og á hvaða kjörum, og hins vegar þarf að skoða til hvaða verkefna skal verja þeim fjármunum sem hið opinbera aflar. Þarna kennir margra grasa og má nefna þjónustu af ýmsu tagi, fjárfestingar í innviðum og stuðningsnet fyrir þau sem búa við þannig aðstæður til langs eða skamms tíma að geta ekki séð sér farborða. Viðfangsefnið má auðvitað nálgast annaðhvort með því að ákveða fyrst hvaða þarfir eigi að uppfylla og afla fjár í samræmi við það eða ákveða fyrst hvaða tekna skuli afla og í framhaldi af því hvaða verkefnum þær eiga að duga fyrir. Í raunveruleikanum gerist þetta auðvitað með einhvers konar blöndu af þessu tvennu.

Viðreisn hefur margoft gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að hafa spennt bogann allt of hátt við aukningu ríkisútgjalda á toppi langrar uppsveiflu í efnahagslífinu og að ríkisfjármálin hafi verið orðin ósjálfbær fyrir faraldurinn. Um þetta ber ríkisreikningur ársins 2019 skýrt vitni. Um 70 milljarða sveifla varð til hins verra frá fjárlögum þess árs. Það er ekki nóg með að ríkisstjórnin hafi spennt bogann allt of hátt, hún hunsaði beinlínis öll varnaðarorð, m.a. frá okkur í Viðreisn, en kaus líka að horfast ekki í augu við allar þær blikur sem voru á lofti um framvindu efnahagsmála, skýr merki um samdrátt í atvinnulífinu. Fjármálaráð hefur einnig bent á þetta með skýrum hætti. Í áliti þess um fjármálaáætlun segir m.a., með leyfi forseta:

„Á þensluskeiðinu fyrir kórónuveirufaraldurinn var losað um beltið og fyrirferð hins opinbera jókst með þeim hætti að undirliggjandi afkoman er orðin neikvæð. Spyrja þarf hvenær og hvernig vinda eigi ofan af þessari þróun.“

Ríkisstjórnin getur því auðvitað engum nema sjálfri sér kennt um þann undirliggjandi vanda sem við er að fást. Það hefur svo haft þau áhrif að við vorum verr í stakk búin en ella til að takast á við afleiðingar veirukreppunnar. Það er mjög nauðsynlegt að halda þessu vel til haga þegar við ræðum um ríkisfjármálin og áætlun til næstu ára. Vandinn var orðinn til fyrir kreppuna. Ríkissjóður var orðinn ósjálfbær fyrir kreppuna. Þegar við horfum til framtíðar verðum við að velta fyrir okkur hvernig við ætlum að takast á við það stóra verkefni að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum, hvernig við ætlum að ná niður skuldum og á hve löngum tíma. Það getur verið dýrt að skulda og mjög erfitt að segja fyrir um hvert vaxtastigið verður til lengri tíma. En því meira sem maður skuldar, þeim mun meira þarf maður að borga í vexti og þeim mun meira sem maður borgar í vexti, þeim mun minna verður til ráðstöfunar af ríkisfé til að setja í arðbærar framkvæmdir, arðbæra innviði, hugsa um kynslóðir framtíðarinnar og gæta þess að hægt sé að veita alla þá þjónustu sem við erum sammála um að sé í verkahring hins opinbera. En ríkisstjórnin hefur verið frekar hljóð um þessa hlið málsins.

Herra forseti. Fjármálaáætlunin er sem sagt ekki margmál um hvernig ná á tökum á ríkisrekstrinum á næstu misserum og árum. Því skal þó haldið til haga að þar er getið um afkomubætandi aðgerðir upp á tugi milljarða en það eru ný skrautyrði til að forðast að tala um niðurskurð og skattahækkanir. Engin dæmi eru nefnd eða hugmyndir viðraðar um þessar afkomubætandi aðgerðir. Auðvitað vita allir að í því felst niðurskurður eða skattahækkanir, nema hvort tveggja sé. Ríkisstjórnin þegir þunnu hljóði um hvaða leið hún ætlar. Sjálfsagt veit hún það ekki eða hefur ekki kjark til að segja frá því fyrir kosningarnar.

Herra forseti. Sýn okkar í Viðreisn er skýr. Við viljum hvorki niðurskurð sem felur í sér skerta þjónustu né skattahækkanir. Að okkar mati er brýnt við þessar aðstæður að skoða vandlega öll ríkisútgjöld og ríkisrekstur, hvar hægt er að gera betur og hvernig má fá sömu eða betri þjónustu fyrir minna fé. Við eigum að gera ríkar kröfur um gæði, skilgreina þjónustu vel og kostnaðargreina. Við verðum að vita hvað við fáum fyrir það fé sem er varið fyrir hönd ríkisins, hvort sem um er að ræða ríkisstofnanir, ríkisfyrirtæki eða einkafyrirtæki sem við kaupum þjónustu af. Hér er sjálfsagt að nefna heilbrigðiskerfið og heilbrigðisþjónustu sem er með stærstu útgjaldaliðum þjóðarinnar. Þá gildir einu hvort hún er einkarekin eða rekin beint af ríkinu sjálfu.

Herra forseti. Í viðtali við ríkissjónvarpið í gær sem fjallaði m.a. um greiðslur til sérfræðilækna sagði forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, með leyfi forseta:

„Eins og kom fram í viðtali við formann Læknafélags Reykjavíkur um daginn þá hefur þessi þjónusta aldrei verið kostnaðargreind eða þær tölur lagðar fram með opinberum hætti, hvorki hvað þjónustan kostar né hvaða framlegð er af henni. Þá er auðvitað bara mjög erfitt að segja hvað er eðlilegt og hvað er ekki eðlilegt. Þannig að við leggjum auðvitað bara mjög ríka áherslu á að þetta sé kostnaðargreint og fólk þurfi bara ekkert að velkjast í vafa um hvað sé eðlilegt í þessu.“

Herra forseti. Undir þetta má taka heils hugar með forstjóranum. Við verðum að vita fyrir hvað er verið að greiða. Það þurfum við að vita, ekki bara þegar keypt er þjónusta af einkaaðilum heldur líka þegar við veitum fjármunum í opinberan rekstur eða þjónustu. Hér er sannarlega mikið verk að vinna. Tólin og tækin eru til og eru notuð víða um heim. Þeim verður að beita. Ef allir sitja við sama borð að þessu leyti getum við verið vissari um að við séum að verja fjármunum vel, hvort sem er til opinbers rekstrar eða einkarekstrar, þjónustu sem er einkarekin en kostuð af ríkinu. Ég er sannfærður um að þarna er eftir miklu að slægjast. Við eigum að vera óhrædd við að velta fyrir okkur hver verkefni ríkisins eru og hvernig þeim verður best sinnt. Við verðum að vera órög við að skoða þessa hluti ofan í kjölinn og breyta því sem hægt er að breyta, okkur öllum til hagsbóta. Við í Viðreisn teljum þetta eitt af stærri og vandasamari viðfangsefnum komandi ára sem þurfi að taka föstum tökum.

Herra forseti. Ég ætla að draga saman nokkur atriði, nokkrar blákaldar staðreyndir um stöðuna í efnahagsmálum þjóðarinnar sem er grafalvarleg fyrir almenning og atvinnulíf. Verðbólgumarkmið Seðlabankans er að halda verðbólgu sem næst 2,5% yfir hvert 12 mánaða tímabil. Frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum hefur verðbólgan verið mæld 41 sinni. Í 36 skipti hefur hún verið yfir verðbólgumarkmiðinu. Síðustu 12 mánuði hefur hún verið yfir markmiði og fjarlægst það enn frekar. Nýjasta mælingin sýnir verðbólgu sem nemur 4,6% og það er ekki í augsýn að verðbólgan fari lækkandi. Ekki nóg með það, herra forseti, að verðbólgan nálgist það að vera tvöfalt meiri en sett markmið gerir ráð fyrir, hún hefur hækkað hlutfallslega langmest á Íslandi miðað við helstu samkeppnislönd innan OECD. Á mannamáli þýðir það að verðlag hefur hækkað hlutfallslega mest á Íslandi undanfarin misseri. Atvinnuleysi er í hæstu hæðum, atvinnuþátttaka hefur aldrei verið minni og ný drög að fjármálaáætluninni gera ráð fyrir því að atvinnuleysi verði áfram mikið, svo mikið að það er umtalsvert hærra en meðalatvinnuleysi síðastliðinna áratuga og skýrt merki um viðvarandi hærra atvinnuleysi á Íslandi en áður hefur þekkst. Aftur sker Ísland sig úr samanburðarlöndunum. Hér hefur atvinnuleysið aukist hlutfallslega mest undanfarin misseri í samanburði við okkar helstu viðskiptalönd. Það er heldur ekki gott met að eiga.

Herra forseti. Íslendingar búa að jafnaði við mun hærra vaxtastig en íbúar annarra Evrópuríkja og oft er talað um sérstakt Íslandsálag í því samhengi. Það er svo sem ekkert nýtt, Íslandsálagið. Það heldur sér í gegnum þrengingar síðustu missera. Vissulega lækkuðu vextir en þeir voru samt hærri en annars staðar og nú er vaxtahækkunarferli hafið á Íslandi. Þar erum við aftur að taka vafasama forystu en við vitum að hækkandi vextir munu valda heimilum og fyrirtækjum búsifjum.

Herra forseti. Margt ungt fólk hefur sótt inn á fasteignamarkaðinn að undanförnu. Það hefur gert það m.a. vegna þess að því hefur á margan hátt verið gert það auðveldara. Það er í sjálfu sér göfugt. Á sama tíma hafa vextir verið sögulega lágir. Þegar þetta tvennt fer saman kallar það fram mikla eftirspurn, sem menn hefðu e.t.v. átt að sjá fyrir, sem markaðurinn hefur ekki getað sinnt að fullu og fasteignaverð hefur hækkað og hækkar enn. Það þýðir að mjög margt ungt fólk, og raunar ekki bara ungt fólk, hefur spennt bogann mjög hátt í þessum efnum til þess að tryggja sér húsnæði þegar það fær stuðning til þess og vextir eru lágir. Nú blasir við þessu skuldsetta unga fólki þrálát verðbólga og hækkandi vextir. Það er ekki góð blanda og hætt við að margir muni því miður lenda í greiðsluerfiðleikum.

Herra forseti. Allt það sem ég hef sagt hér að framan eru einfaldlega staðreyndir sem ekki er hægt að hrekja. Þær sýna svo að ekki verður um villst að það er eitthvað að hjá okkur. Það er ekki allt í himnalagi. Það sýnir okkur líka að mörg og erfið verkefni eru fram undan. Eins og áður hefur komið fram í þessari ræðu á núverandi ríkisstjórn sér þann draum helstan að geta haldið áfram. Maður hlýtur að spyrja sig eftir þessa upptalningu: Er heppilegt að sá draumur rætist? Mitt svar liggur í augum uppi: Ég held ekki. Ég held að þessi ríkisstjórn muni ekki ráða við verkefnið sem er fram undan.

Herra forseti. Sem áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd á ég þess ekki kost að setja fram sérstakt nefndarálit. Þessi ræða verður því að þjóna þeim tilgangi jafnframt. Ég verð að segja að ég velti því mjög mikið fyrir mér hvort við í Viðreisn ættum að leggja í þá vinnu að setja fram breytingartillögur við þessa fjármálaáætlun. Niðurstaðan varð sú að gera það ekki og ástæðan fyrir því er afar einföld: Við í Viðreisn höfum á þessu kjörtímabili lagt okkur fram um að leggja fram vandaðar tillögur til breytinga á fjárlögum, fjáraukum og fjármálaáætlunum. Það er skemmst frá því að segja að vinnulag stjórnarflokkanna sem hér ráða ferðinni er þannig að þeir hafa sammælst um að samþykkja ekki neitt sem frá Viðreisn kemur, og raunar öllum stjórnarandstöðuflokkunum eins og þeir leggja sig ef út í það er farið. Niðurstaða okkar varð því sú að tillögugerð að þessu sinni væri sóun á tíma okkar, sóun á tíma þingsins og sóun á pappír.

Herra forseti. Enn einu sinni vil ég undirstrika að forsenda farsældar okkar er kröftugt, hugvitsdrifið atvinnulíf sem getur flutt út þjónustu og vörur. Það skapar góðan og jafnan hagvöxt til langs tíma og getur þannig staðið undir öflugu velferðarkerfi. Á þeim vettvangi þurfum við að hlúa vel að nýsköpun, tækni og vísindum og hugsa til langs tíma. Þetta er það sem við verðum að byggja á til framtíðar til að ná þeim markmiðum sem við viljum öll svo gjarnan ná um aukna farsæld og hagsæld okkur öllum til handa. Til að það allt saman sé hægt verður að skapa efnahagslegan stöðugleika og fyrirsjáanleika, bæði í lífi fyrirtækjanna sjálfra og í efnahagsumhverfinu. Það er miður að þrátt fyrir að þessi ríkisstjórn hafi gert margt mjög vel, og ég vil ítreka það, í tengslum við nýsköpun og tækni, þá er ég alltaf jafn hissa á því að þau skuli ákveða að hætta í miðri á. Stuðningur við nýsköpunarfyrirtækin er tímabundinn og ekki til lengri tíma en raun ber vitni. Það eru allir sem um þessi mál tala sammála um að hér þurfi fyrirsjáanleika einhver ár fram í tímann. Auðvitað þarf að endurskoða þessar stefnur. Það verður samt að vera þannig að þegar lagt er í vegferð sem nýsköpunarfyrirtæki og ætlunin er að treysta á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar, treysta á að það séu til vísisjóðir sem eru tilbúnir til að fjárfesta í fyrirtækinu, verður að hafa einhverja fullvissu um að það verði fyrir hendi næstu fimm, sex, sjö árin. Síðan er alltaf hægt að endurnýja stefnu og þá brotnar framan af þessum skriðjökli. Þetta virðist ríkisstjórnin ekki vilja skilja.

Að öðru leyti eru helstu áskoranirnar við að byggja upp atvinnulíf af þessu tagi háir vextir, Íslandsálagið, skortur á þessum langtímastuðningi og framtíðarsýn hins opinbera og það er of lítil erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi. Það er nú einu sinni þannig að margt af þessu skapast vegna þess efnahagsumhverfis sem krónan skapar íslensku samfélagi. Hvernig ætlum við sem samfélag að auka stöðugleikann, efla íslenskan útflutning og fjölga tækifærum í íslenskri nýsköpun á meðan við höfum gjaldmiðil sem vinnur gegn þessum sömu markmiðum eða á meðan ríkisstjórnin hefur sýnt að trúin á gjaldmiðilinn er ekki meiri en svo að hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp sem heimilar Seðlabankanum að grípa til viðamikilla gjaldeyrishafta án aðkomu þingsins? Hvernig eiga menn að geta treyst því að vera í umhverfi þar sem hægt er að grípa til hafta af þessu tagi? Krónan er vandamál, hún veldur sveiflum, vextir á evrusvæðinu og í þeim ríkjum sem hafa tengt gjaldmiðil sinn við gengi evru eru alltaf lægri en á Íslandi. Íslandsálagið fylgir okkur. Það þýðir auðvitað að íslenskur almenningur greiðir hærra verð fyrir lán sín en almenningur í löndunum í kringum okkur. Fyrirtækin þurfa að standa straum af auknum kostnaði og ríkissjóður tekur ítrekaða áhættu með erlendri lántöku. Á þetta bendum við sýknt og heilagt. Við munum ekki hætta að benda á þetta fyrr en það verður lagað. Það er svo borðleggjandi hvað þetta skiptir framtíð okkar miklu máli að það er í raun óskiljanlegt að menn fari ekki í það að reikna almennilega út hvað það kostar okkur að vera með krónu, hvað það kostar ríkið, hvað það kostar sveitarfélögin, hvað það kostar almenning. Það vilja menn ekki gera, finnst það vera — ja, ég veit ekki hvað. En þetta er svo stórt hagsmunamál að það er eiginlega óskiljanlegt.

Herra forseti. Ég er búinn að fara hér yfir nokkur grundvallaratriði. Það væri hægt að tína til svo margt fleira sem varðar umhverfismál, sem varðar heilbrigðismál, sem varðar það að við verjum meira fé í að varðveita og halda utan um það fólk sem nú glímir við atvinnuleysi. Það eru þúsundir manna. Það reynir á sálarlífið. Það er mörgum mjög erfitt og það er ekki gott að fólk skuli ekki vera fullvissað um að um það verði hugsað. Það skortir á það í þessari fjármálaáætlun. Aðalatriðið er að við verðum á næstunni að fara vel með ríkisfé. Við þurfum að ígrunda alls staðar í hvað við erum að setja fé, hvað við erum að fá fyrir það. Það gildir á öllum sviðum. Ég hef djúpa sannfæringu fyrir því að við getum fengið betri þjónustu fyrir minna fé ef við stöndum okkur vel á þessu sviði. Ég hef djúpa sannfæringu fyrir því að hægt sé að reka heilbrigðiskerfið með skilvirkari hætti, bæði hið einkarekna og hið opinbera, ef við göngum í það verk að greina hvað fram fer á þessum stofnunum, gera gæðakröfur, gera kröfur. Að sjálfsögðu greiðum við fyrir það. Þá held ég að margt sé unnið á næstu árum. Það sem ég hef farið hér yfir í þessari ræðu eru allt mikilvæg atriði sem bíða framtíðarinnar, bíða þeirra sem komast á þing á næstunni og þeirrar ríkisstjórnar sem verður til. Þetta verða erfið verkefni. Taka þarf margar ákvarðanir. Í þessum efnum er skynsamlegt, held ég, fyrir stjórnmálamenn — ég er a.m.k. þeirrar skoðunar — að lofa sem minnstu upp í ermina á sér en standa sig þeim mun betur.