151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni prýðisræðu sem stendur vel undir nafni nefndarálits. Ég er eiginlega hrifnastur af lokaorðum hv. þingmanns og við eigum auðvitað ekki að lofa þannig upp í ermina á okkur að við getum ekki staðið við þau loforð. Ég held að það eigi hvergi betur við en þegar kemur að ríkisfjármálum.

Hv. þingmaður kom inn á fjölmargt í ræðu sinni sem ég get tekið heils hugar undir. Fyrst vil ég nefna þessa mikilvægu áskorun sem við stöndum frammi fyrir, að koma atvinnulífinu af stað. Þessi spá um 5% atvinnuleysi þegar slakinn er horfinn úr hagkerfinu, sem þýðir það að við erum farin að nýta framleiðslutækin sem eru ónýtt í dag, fyrst og fremst í ferðaþjónustu, sýnir hærra atvinnuleysisstig en við þekkjum. Það er okkar stærsta áskorun að koma atvinnulífinu af stað. Hv. þingmaður talar hér um einfaldan framreikning sem vissulega er, en ég vil minna á að það byggir á grundvelli stefnu sem við samþykktum í haust og er framreikningur á áætlun sem við samþykktum í desember, en dregur mjög skýrt fram verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Það þarf að koma skýrt fram.

Hv. þingmaður talaði jöfnum höndum um stöðugleika og hvað þyrfti að gera og verðbólguþrýstinginn. Þetta verður nefnilega mjög mikil (Forseti hringir.) jafnvægislist fram undan, að draga ekki of hratt úr aðgerðunum en mynda þó ekki þann þrýsting að við missum verðlagið upp. (Forseti hringir.) Hverjar eru tillögur Viðreisnar þegar kemur að aðlöguninni, (Forseti hringir.) svo ég noti þetta orð sem mér heyrðist hv. þingmanni vera meinilla við?