151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég fékk nú ekki alveg fullt svar við því hverjar væru áherslur Viðreisnar. En varðandi stefnumörkun og áætlunargerð, á hverju fjárlögin hvíla, þá erum við með gildandi áætlun til 2025 og það má kannski segja, til að vera sanngjarn, að það sé þá framreikningur á árið 2026. En það er þó þannig að ný ríkisstjórn mun setja fram nýja stefnu, nýja áætlun, inn á nýtt fjárlagaár. Það verður verkefni nýrrar ríkisstjórnar. En það er í gildi stefnumörkun og áætlun sem við samþykktum í desember. Hún gildir til 2025. Þar er mjög skýr stefnumörkun á öllum 35 málefnasviðum. Mér finnst það því nokkuð léttvægt sem margir hv. þingmenn í stjórnarandstöðu hafa gefið til kynna. Hér er mjög skýrt lagt fram hvernig framvindan kunni að verða miðað við ólíkar sviðsmyndir; grunnsviðsmynd, bjartsýna sviðsmynd og svartari sviðsmynd. Þetta er mjög háð því hver framvinda bólusetninga verður og hvernig okkur tekst að koma ferðaþjónustunni af stað. Alveg eins og niðursveiflan var mjög skörp vegna vægi ferðaþjónustunnar þá getur hún orðið skarpari upp á við þegar við förum að nýta ónýtta framleiðslugetu. Það verður hins vegar framleiðslutap og líklegast eru spárnar þess vegna að segja að það verði hærra atvinnuleysisstig. Þess vegna hefur þessi ríkisstjórn sett verulegan kraft í uppbyggingu í nýsköpun, rannsóknum og þróun. Og ég tek undir með hv. þingmanni: (Forseti hringir.) Verkefnið fram undan er að auka útflutning í hugvitsdrifnu hagkerfi. Þá mun þessi kraftur í nýsköpuninni fara að skila sér. Það er mjög mikilvægt.