151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:50]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Enn þakka ég hv. þm. Smára McCarthy fyrir andsvarið og spurninguna. Ég ætla þá bara að leyfa mér að hugsa svolítið upphátt hérna í pontunni, sem maður ætti kannski ekki alltaf að gera. Ég held að að sumu leyti þurfum við einhvern veginn að trúa því betur að við getum gert hluti. Við þurfum að trúa því að við getum orðið alvöru nýsköpunar- og tækniland og hugvitsdrifið útflutningsland. Við eigum að trúa því í alvöru. Í gegnum mína starfsævi hef ég komið mjög að iðn- og tæknimenntun. Við tölum alltaf um hvað þetta sé gríðarlega mikilvægt og nú þurfi að gera eitthvað og gera það vel. Við gerum smá og svo trúum við því einhvern veginn ekki lengur og hættum. Ég vil ekki gera neitt lítið úr því sem hefur verið að gerast núna á síðustu misserum í því að fólki hefur fjölgað sem skráir sig t.d. í iðnnám í Tækniskólanum, það er mjög gleðilegt, en ég held að við trúum því ekki nægilega. Ég er t.d. ekki farinn að sjá að við ætlum að fylgja því eftir með því að þessir skólar sem veita þessa menntun verði í toppklassa með kennara, tækjabúnað og húsakost. Við hættum í miðri á og svo sækir fólk um og það þarf að vísa því frá. Það er ekki pláss fyrir það eða það getur ekki lært. Ég er alls ekki að gagnrýna núverandi kerfi. Það eru allir að gera eins vel og þeir mögulega geta. En til þess að geta farið í heimsklassa og við trúum því í alvöru að við getum eignast svona hefðir á þessu sviði þá verðum við að ganga alla leið. Mér finnst svo oft að við göngum aldrei alla leið, við stígum svona hálft skref og hörfum helst, sérstaklega ef það hleypur á snærið hjá okkur, og þá gleymum við öllu hinu sem við ætluðum að gera.