151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:52]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem sagt hefur verið hér að miklar áskoranir eru fram undan þegar kemur að hagstjórn í landinu og lítur út fyrir að hallarekstur ríkissjóðs verði töluverður. Hér liggur fyrir fjármálaáætlun sem er sú síðasta sem þessi ríkisstjórn leggur fram og er alls ekki víst að hún haldi. Hætt er við því að halli ríkissjóðs vari í einhver ár, sem getur haft neikvæð áhrif, og teikn eru á lofti hvað varðar atvinnumöguleika fólks. Þetta segir okkur að vanda þarf til verka og sjá til þess m.a. að helsti vaxtarbroddur okkar, ferðaþjónustan, geti risið hratt á ný.

Sú áætlun sem liggur fyrir þinginu er ágætt efnahagsyfirlit. Jafnvel má tala um stöðutöku þar sem ekki er farið sérstaklega djúpt í útfærslu hinna ýmsu málaflokka. Kannski er ekkert skrýtið að ekki sé um raunverulega stefnumótun að ræða þar sem kosningar eru jú eftir nokkra mánuði og ríkisstjórnarflokkarnir vilja ekki sýna á spilin. Það sést vel þó svo að fjármálaáætlun sé ætlað að vera ákveðin leiðsögn, ákveðin mynd, að nú þarf að gefa skýrt til kynna hvernig á að vinna okkur út úr vandanum. Það þarf að vera alveg skýrt frá upphafi að ekki verði ráðist í niðurskurð á lögbundinni þjónustu. Það þarf einnig að vera alveg skýrt að staðinn verði vörður um að fólk hafi aðgang að sömu þjónustu hvar sem það býr á landinu. Það er vissulega óvissa í efnahagsmálum og þess vegna þarf þessi skurðpunktur að vera svona skýr. Á sama tíma þarf að leita leiða til að nýta alla þá valkosti sem standa til boða.

Kórónuveirufaraldurinn og afleiðingar hans hafa haft mismunandi áhrif á ólíka hópa, fjölskyldur og fyrirtæki. Þess vegna verðum við að taka þannig á málum að allir hafi hag af því. Staðan er ekki góð en það er líka mikilvægt að velja sér sjónarhorn, hvernig mæta eigi framtíðinni á næstu misserum, næstu vikum. Við erum farin að sjá til sólar í orðsins fyllstu merkingu og það verður verk næstu ríkisstjórnar að greiða úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Þess vegna þarf að sjá til þess að vöxtur geti orðið og til þess að svo verði þarf að hugsa út fyrir rammann.

Við getum nefnt að áfram er aðhaldskrafa á ákveðnar opinberar stofnanir. Þessar sömu stofnanir hafa margar hverjar sparað sér ferðalög og hafa í gegnum faraldurinn nýtt sér fjarfundabúnað með góðum árangri. Ég veit fyrir víst að stofnanir á landsbyggðinni hafa í gegnum faraldurinn jafnvel átt í betri samskiptum við stjórnvöld þar sem þeim er oftar hleypt að borðinu á jafningjagrundvelli í gegnum fjarfundabúnað. Þetta dæmi getur kennt okkur að það er vel hægt að sjá tækifæri í þeim þröngu aðstæðum sem verið hafa uppi nú um nokkuð langt skeið.

Ferðamenn eru farnir að horfa til Íslands. Við getum þakkað, að ég held, eldgosinu fyrir það, enda var umfjöllun um það á stærstu miðlum hins vestræna heims fyrir stuttu. Búið er að samþykkja frekara fjármagn til uppbyggingar á Keflavíkurflugvelli. Það er nefnt sem dæmi um Covid-aðgerð, en ég hefði frekar viljað sjá staðið við það sem lagt var upp með, að leggja fram aukið fjármagn til Egilsstaðaflugvallar og þannig staðið við að útbúa akstursbraut þannig að sómi væri að. Nú er aðeins ætlunin að malbika flugbrautina sjálfa, sem er vissulega löngu tímabært, en það er sérstakt að fresta þessari framkvæmd með akstursbraut á Egilsstaðaflugvelli. Akstursbrautinni eru ætluð tvíþætt áhrif, að liðka fyrir umferð loftfara á flugbrautinni og flýta fyrir því að rýma brautina fyrir annarri umferð. Að auki átti sá kostur að vera fyrir hendi að nota akstursbrautina sem stæði fyrir flugvélar þegar ástand lokaði öðrum flugvöllum á Íslandi. Það getur gerst. En þessari framkvæmd var frestað vegna Covid. Það er mjög erfitt að fá botn í það og þetta er einn af þeim þáttum sem mér finnst miður. Vöxtur ferðaþjónustunnar er nefnilega mikilvægur, en sá vöxtur verður að geta átt sér stað um allt land.

En meira þarf til. Það þarf að bæta umhverfi fyrirtækja þannig að þau geti einnig vaxið og bætt við sig starfsfólki, jafnvel fyrirtæki sem hafa hag af þessum sömu ferðamönnum sem við vonumst til að fá hingað til lands. Þess vegna er mikilvægt að styðja fyrirtækin og sjá til þess að regluverkið sem þau búa við verði einfaldað. Við í Miðflokknum höfum talað fyrir lækkun tryggingagjalds og lækkun fasteignaskatta, sem dæmi. Það gæti gagnast. Auka þarf tækifæri fyrirtækja til nýsköpunar á öllum sviðum mannlífsins, vil ég leyfa mér að segja. Þá vil ég sérstaklega nefna bændur í því sambandi. Ég held þeir standi í nýsköpun á hverjum einasta degi. Það þarf að gæta þess að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni, er síendurtekinn frasi en nokkuð sannur engu að síður.

Ég get ekki annað en komið inn á rekstur öldrunarheimila í örfáum orðum. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa ítrekað bent á að það stefni í ófremdarástand vegna reksturs þeirra. Þetta eru örfá orð en þau segja mjög mikið. Þau benda á alvarleikann sem hjúkrunarheimili standa frammi fyrir og það er ljóst í mínum huga að stjórnvöld verða að koma að vandanum með ákveðnum hætti. Við þurfum að tryggja rekstur þeirra og við verðum að tryggja fagmönnun starfsfólks.

Það er margt annað sem hægt væri að ræða hér. Við sjáum nú þegar merki um aukna vanlíðan barna og ungmenna. Ég hef á hverjum þingvetri lagt fram skriflega fyrirspurn um biðtíma og stöðugildi sálfræðinga. Ég á enn eftir að fá svar við þeirri fyrirspurn sem ég lagði fram síðast. Það verður fróðlegt að sjá hver þróunin hefur verið undanfarin ár. Auk þess spurði ég um biðtíma og stöðugildi geðlækna.

Svo er það byggðaþróunin. Það er mjög mikilvægt, eins og ég nefndi í byrjun, að við sem búum á landsbyggðinni gefum ekki afslátt af þeirri grunnþjónustu sem við eigum rétt á. Ég get í því sambandi nefnt skólana, heilbrigðisstofnanirnar, sjúkrahúsin, öldrunarheimilin og alla þá lögbundnu þjónustu sem þarf að verja. En það er meira en það. Það þarf að vera rými svo þessar stofnanir geti sótt fram. Það er mjög mikilvægt að stofnanir á landsbyggðinni og fyrirtæki á landsbyggðinni snúi vörn í sókn. Með þeim orðum lýk ég máli mínu.