151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þetta mun vera síðasta fjármálaáætlun sem þessi ríkisstjórn leggur fram hér á þingi og tímarnir eru verulega breyttir frá því bara fyrir rúmlega ári síðan. Eins og öllum er kunnugt hefur samfélagið gengið í gegnum baráttu við veirufaraldur og atvinnulíf hefur að mörgu leyti markast af því. Ríkisstjórnin hefur með stuðningi okkar stutt við þau fyrirtæki og aðila sem hafa þurft að takast á við rekstrarerfiðleika á meðan á þessu stendur, sérstaklega þó í ferðamannageiranum. Atvinnuleysi hefur aukist þannig að niðurstaða ríkissjóðs er mikill halli. Það er mikill halli á ríkissjóði og við horfum fram á að það verði áfram halli eitthvað fram eftir þó að þessum veirufaraldri ljúki vonandi senn, herra forseti, sem ég vænti að verði núna í sumar ef ég á að vera bjartsýnn.

Hvað tekur þá við? Hvað tekur við eftir kosningar í haust? Í september næstkomandi göngum við til alþingiskosninga og kjósum nýtt löggjafarþing og þá tekur við ný ríkisstjórn. Hvaða verkefni bíða hennar? Verkefnin sem bíða eru að rétta af halla ríkissjóðs, þ.e. að ná þessu til baka, koma ríkissjóði á réttan kjöl og borga síðan niður skuldirnar. Þá er tvennt til, herra forseti: Annaðhvort fara menn í skattlagningu eða láta vöxt atvinnulífsins greiða þetta niður á lengri tíma. Ég er satt best að segja ansi hræddur um að ef hér tekur við vinstri stjórn — svona miðað við hvernig vinstri menn hafa talað á þingi á undanförnum misserum þar sem menn hafa bókstaflega kallað eftir skattahækkunum og kallað eftir fjölgun opinberra starfa, það sé jafnvel lausn á vandamálum atvinnuleysis að fjölga opinberum störfum og eigi að vera sérstakt markmið — ég er ansi hræddur um að ef við fáum hér vinstri stjórn, sem vel gæti gerst og allt bendir til miðað við kannanir, þá muni menn fara leið skattlagningar, að skattar muni hækka mjög mikið strax næsta vetur til að reyna að ná þessum halla niður. Þá munu menn elta skottið á sér vegna þess að umsvif ríkisins í tíð vinstri manna hafa nú yfirleitt aukist mjög þannig að ekki er víst að skattlagningin nái í skottið á sér að því leytinu til. En ég er fylgjandi því að við látum vöxt atvinnulífsins greiða niður hallann á lengri tíma. Það er sú sýn sem ég sé sem lausn á því að rétta halla ríkissjóðs.

Það eru ýmsar blikur á lofti. Við höfum horft fram á það undanfarna nokkra mánuði að verðbólgan er að fara af stað. Það þrýstir á vaxtahækkanir og líklega er þess ekki langt að bíða að við fáum að sjá þær hellast yfir landsmenn. Það mun óhjákvæmilega skerða kjör launafólks en það mun einnig valda því að þeir sem hafa fest kaup á fasteign á undanförnum misserum með háum lánum á breytilegum vöxtum án þess að hafa átt mikið eigið fé þegar ráðist var í þá fjárfestingu gætu þurft að horfa á svolítið breytt umhverfi. Mér segir svo hugur að þarna sé falinn vandi vegna þess að þegar stjórnvöld í einhvers konar vinsældaleik ákveða að styðja ungt fólk til að kaupa íbúð með því að hækka lánsfjárhlutfall eins og hefur gerst núna, og reyndar oft áður, ég hef séð þetta, herra forseti, oft áður síðustu áratugi, þá kemur þetta yfirleitt í bakið á fólki. Ég segi yfirleitt vegna þess að það gerist ekki alltaf, stundum hefur íbúðaverð hækkað mjög mikið jafnhliða. En að vera íbúðarkaupandi á Íslandi er svipað og að spila í lottóinu; á hvaða tíma kaupirðu, hvaða lán færðu, hvernig hækka þau eða lækka? Þetta er algert lottó sem íbúðarkaupendur á Íslandi hafa þurft að búa við í mjög marga áratugi og það virðist vera að ekkert lát sé á því núna. Þó að aðstæður hafi verið hagstæðar hvað varðar vexti þá hefur íbúðaverð hækkað. Þetta gerist alltaf, herra forseti. Það gerist alltaf þegar stjórnvöld skipta sér svona af markaðnum, veita lánsfé inn á markaðinn, þá veldur það hækkun á íbúðaverði þannig að unga fólkið þarf bara að kaupa dýrari íbúðir, taka stærri lán og skulda meira. Ef þessir lágu vextir eru ekki viðvarandi, sem þeir verða alveg örugglega ekki, þá kemur þetta verr út.

Þetta er afleit hringavitleysa sem við erum að bjóða unga fólkinu upp á æ ofan í æ í einhverjum vinsældaleik og ég held við ættum að fara að láta af því. Þeir einu sem hagnast á þessu eru byggingaraðilar, sem reyndar hafa horft fram á aukinn byggingarkostnað og mikinn skort á lóðum. Hluta af vandamálinu, þessu hækkaða íbúðaverði, er auðvitað að finna hjá sveitarfélögunum sem hafa mörg hver, sérstaklega þó Reykjavíkurborg í seinni tíð, ekki boðið fram nægilegt magn af lóðum og lóðaverð verið allt of hátt. Það er ekki fyrir nokkurn mann orðið á að fá sér lóð og allra síst fyrir ungt fólk að ætla sér að reisa húsnæði fyrir sig og fjölskylduna. Það gerist ekki lengur eins og var hér áður fyrr að fólk gat þó bjargað sér með því að reisa sér húsnæðið sjálft. Nú er lóðaverð orðið það hátt, og þar skiptir máli hvað sveitarfélögin gera, og mikill hörgull á lóðum þannig að ungt fólk á ekki lengur kost á að fara þá leið sem var þó bjargráð mjög margra á árum áður.

Hversu lengi verðum við að komast upp úr þeim öldudal sem við erum núna stödd í? Það er ekki gott að segja. Um leið og takmörkunum léttir og fólk getur farið að ferðast er ég bjartsýnn á að ferðamannastraumurinn muni vaxa mjög hratt, nái því að aukast strax á þessu ári og verði svipaður og verið hefur innan eins til tveggja ára. Ég held að fyrirtæki muni jafna sig hratt á þessu, það er að segja þau sem lifa þetta af. Þannig að ég er bara bjartsýnn á að atvinnulífið taki mjög hratt við sér.

Ég ætla að ræða ýmis málefni varðandi þessa fjármálaáætlun og fara ofan í nokkur atriði. Ég gæti t.d. byrjað á hjúkrunarheimilunum. Ég heyrði að fyrri ræðumaður, hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir, ræddi örlítið um hjúkrunarheimili. Það er gert ráð fyrir því í áætlun að fjárfesta í ákveðnum fjölda hjúkrunarrýma en það er ekkert tekið á vandamálinu sjálfu. Vandamálið er hvernig á að reka hjúkrunarheimilin. Það hefur verið vandamál í nokkur ár að fyrirtæki sem reka hjúkrunarheimili og fá greiðslur frá ríkinu, sem er þjónustukaupi í þeim efnum, hafa ekki getað rekið sig. Samkvæmt skýrslu verkefnisstjórnar um greiningu á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila eru allflest hjúkrunarheimili rekin svo að segja með miklum halla. Ég er með skýrslu um þetta hérna og þar kemur fram að meiri hluti hjúkrunarheimila sé rekinn með halla. 73% hjúkrunarheimila voru rekin með halla á árinu 2019. Þetta er án áhrifa þeirra kjarasamninga sem koma til árið 2020. Það er einungis jákvæð afkoma hjá einum þriðja hluta hjúkrunarheimila. Það eru ansi sláandi tölur sem koma fram í þessari skýrslu. Neikvæð afkoma um meira en 8% er hjá fjórðungi hjúkrunarheimila sem segir stóra sögu af því hvernig ástandið er á slíkum hjúkrunarheimilum, enda er það staðreynd að fjölmörg sveitarfélög sem hafa rekið sum þessara hjúkrunarheimila eru að skila þeim aftur í fang ríkisins. Það eru dæmi um það eins og í Vestmannaeyjum og á Akureyri og þreifingar eru víðar um það sama. Ég velti þessari spurningu upp: Hvað ætla stjórnvöld að gera varðandi þetta? Ætla þau að velta vandanum áfram á undan sér þangað til allt er komið í óefni eða er einhver leið að minnka kröfurnar? Það gengur auðvitað ekki, herra forseti, að byggja hér hjúkrunarheimili, þótt það sé gott, ef það er ekki hægt að reka þau, það gefur augaleið.

Þessi vandi mun einungis aukast vegna þess að fjöldi aldraðra eykst ár frá ári og sem dæmi um það, úr þessari sömu skýrslu, eru núna 12.000 einstaklingar 80 ára og eldri og eftir einungis 15 ár verður fjöldi þeirra helmingi meiri. Það verður tvöföldun á næstu 15 árum. Ég tel því að það þurfi að bregðast við þessu af fullri hörku, af fullri alvöru, bæði að byggja fleiri heimili og tryggja rekstur þeirra í samræmi við þær kröfur sem við gerum og í samræmi við það að við viljum auðvitað sinna gamla fólkinu okkar betur en fréttir herma stundum að þau séu vannærð og ein heima og fái ekki vistun á hjúkrunarheimilum. Við viljum ekki heyra svoleiðis sögur og við verðum auðvitað að fara að búa til stefnu þar sem við getum horft fram á það að geta sinnt gamla fólkinu okkar sómasamlega. Ég kalla eftir því að eitthvað sé gert í rekstri hjúkrunarheimila, að það mál sé klárað og samið verði við þá sem sinna slíkri þjónustu þannig að þeir geti sinnt henni án þess að vera með taprekstur ár eftir ár sem safnast upp og lendir að endingu í fangi ríkisins.

Ég ætla líka að ræða um lögregluna. Ég get haldið langa ræðu um það en ætla bara að nefna að það verður að fara að bregðast við uppgangi skipulagðra glæpahópa á Íslandi. Við höfum flutt mörg mál um þetta, höfum haldið sérstaka umræðu. Við höfum lagt fram skýrslubeiðni til hæstv. dómsmálaráðherra og ég vænti þess að ég fái þá skýrslu fljótlega þar sem greint verður frá því til hvaða aðgerða stjórnvöld hyggjast grípa til að stemma stigu við þessari mestu vá, eins og sagt er í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sem steðjar að ef náttúruhamfarir eru frátaldar. Svona harðorð skilaboð verðum við að taka alvarlega og ég brýni hæstv. ráðherra enn og aftur í því að fara eftir ráðum lögreglunnar. Við verðum að veita þeim fleiri vopn í hendur, róttækari úrræði, til að stemma stigu við þessu. Við höfum voðaatburði nýlega sem opnuðu augu almennings í raun fyrir því að hér er alvara á ferðum, dauðans alvara. Við getum ekki verið þekkt fyrir það að sitja hjá eftir allar þær viðvaranir, látið þetta viðgangast, heldur verðum við að grípa til aðgerða.

Ég ætla einnig að ræða um loftslagsmálin. Ég vil gera þá kröfu að þegar stjórnvöld ákveða að verja þvílíkum upphæðum til loftslagsmála sé tilgreint nákvæmlega í hvað þeir fjármunir fara, eins og við gerum reyndar í fjárlögum ríkisins, að sett séu markmið og að það sé hægt að mæla árangur af þeim aðgerðum sem fyrirhugaðar eru, hverjar sem þær nákvæmlega eru. Það er sjálfsögð krafa í ríkisrekstri að árangur sé mælanlegur og mér finnst skorta á það þegar kemur að loftslagsmálum. Það eru veittir gífurlegir fjármunir í þennan málaflokk. Ég held að á næsta ári verði veittir 13,3 milljarðar í loftslagsmál. Vissulega sjáum við að sumt af því á sér einhvern áfangastað í kerfinu en það er afskaplega rýrt í roðinu hvert þessir fjármunir eiga að fara. Nú er ég að tala um loftslagsmálin, hv. formaður fjárlaganefndar. Ég kalla eftir því að árangur verði mældur frekar en kemur fram og þessar aðgerðir verði skilgreindar og tilgreint í hvað eigi að ráðast þarna. Verið er að veita 10 milljarða á næstu tíu árum í loftslagsmálin umfram það sem verið hefur. Það er gott og gilt, auðvitað verðum við að taka á þeim vanda, en það verður að gera þá kröfu í ríkisrekstri að þarna sé nákvæmlega tilgreint hvað menn ætli að gera, í hvað þessir peningar eigi að fara og hvernig eigi að mæla árangurinn af því. Þannig að ég geri þessa kröfu um loftslagsmálin.

Ég hef lagt fram tillögur hér varðandi skógrækt og sorpbrennslu. Það virðist sem ríkisstjórnin ætli sér hvorugt að gera. Skógrækt er augljóslega langbesta leiðin til að binda kolefni og yrði glæsilegt framlag Íslendinga til loftslagsmála ef við myndum taka hendur úr vösum og fara að rækta skóg af einhverjum krafti, þó ekki væri nema svipað og hér fyrir hrun. En það vantar mikið upp á það. Ég lagði fram tillögu um að við myndum fjórfalda það, að við myndum rækta skóg og planta 12 milljónum plantna á ári, en þess í stað plöntum við 3–4 milljónum plantna núna, sem er mun minna en fyrir hrun. Ég kalla því eftir aukinni skógrækt sem yrði glæsilegt framlag okkar til loftslagsmála.

Síðan með sorpmálin. Ég ætlaði að koma inn á þau en tíminn er á þrotum. Ég ætlaði bara að benda á tillögu mína um að við ættum auðvitað að brenna sorpið okkar innan lands, ættum að hætta að flytja sorp erlendis eða urða það. En til þess verðum við að reisa hér umhverfisvæna sorpbrennslustöð.