151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Sú fjármálaáætlun sem við erum að ræða hér í dag er svipuðu marki brennd og mjög margt sem hefur komið frá ríkisstjórninni sem nú situr. Þetta er í sjálfu sér stefnulaust plagg. Það er eiginlega engin framtíðarsýn í þessu plaggi. Það er engin stefnumótun í því hvað á að gera til að ná flugi, að Ísland nái flugi aftur. Ég vil sérstaklega taka það fram strax, ekki síst í framhaldi af þeirri ræðu sem síðust var flutt hér, að ég er ekki í hópi þeirra sem tala Ísland og íslenskt efnahagslíf niður. Ég er ekki í þeim hópi sem telur að Ísland eigi verri möguleika til að komast út úr þessari kreppu heldur en önnur lönd nálæg, þvert á móti. Ég tel að Íslendingar hafi einstakt tækifæri til að komast út úr þessu ástandi sem við erum í núna jafnvel fyrr og betur heldur en aðrir. Ég mun kannski fara aðeins yfir það aftur á eftir í ræðu minni.

Í sjálfu sér má segja að sú stefna sem hér er lögð fram sé kosningaplagg ríkisstjórnarinnar, ofsalega aumt kosningaplagg en kosningaplagg engu að síður. Það heyrðist í gær í umræðum af hálfu stjórnarliða að það hefði verið óábyrgt að vera með tölur sem væru stórkostlega hærri en hér eru sýndar einmitt á kosningaári. Það er sjónarmið út af fyrir sig. En það var nú kannski ekki það sem maður var að hugsa um heldur einmitt að hér væri einhver lykill að lausn fyrir fyrirtæki og heimili til að ná sér út úr núverandi ástandi. En svo er því miður ekki.

Ég ætla að fara yfir örfá atriði. Eitt sem við okkur blasir er að örva hagvöxt. Það vill svo til, herra forseti, og það er kannski ekki til siðs í þessum ræðustól að vitna í sjálfan sig en ég ætla að leyfa mér að gera það, að fyrir um ári síðan, 31. mars og fram í apríl, skrifaði ég nokkrar greinar í blað hér í Reykjavík eða á netinu réttara sagt um möguleikana sem Ísland ætti að lokinni þessari sótt með því að við gripum strax þá, fyrir einu ári síðan, til ráðstafana sem tryggðu uppgang eftir 12–18 mánuði, sem ég nefndi í greinunum mínum þá, í mars í fyrra. Þá átti ég við tímann frá apríl 2021 til kannski september 2021. Ég lagði til í fyrra að það yrði gripið til ýmissa ráðstafana til þess að efla íslenska framleiðslu, til þess að efla gjaldeyristekjur sem við þurfum á að halda sem þjóðfélag þegar við komum út úr þessu ástandi til að flýta því að greiða niður þær skuldir sem ríkissjóður hefur safnað meðan á þessu ástandi stóð. Það sem ég lagði m.a. til snerti íslenskar eftirlitsstofnanir sem hafa tafið mjög fyrir uppbyggingu í atvinnulífi, það hefur t.d. tekið allt upp í 18–24 mánuði að fá framkvæmdaleyfi fyrir fiskeldi á landi sem er ekki nýframkvæmd heldur áframhaldandi framkvæmd sama fyrirtækis og hefur tafið fjármögnun, sölusamninga og annað. Þetta er t.d. algjörlega ólíðandi. Ég veit ekki til að þetta hafi breyst mjög mikið, ég held að það sé enn þá 18–20 mánaða biðtími í það að fyrirtæki sem eru að hasla sér völl á þessu sviði fái úrlausn sinna mála þannig að þau geti haldið áfram uppbyggingu.

Ég nefndi líka í þessum greinum mínum í fyrra að núna væri lag, þ.e. fyrir rúmum 12 mánuðum, til þess að lækka stórlega raforkuverð til ylræktar. Það vill nú þannig til að einn af frumkvöðlum í ylrækt og reyndar í ferðamannaiðnaði, ég vil nú ekki segja ferðamannaiðnaður en í ferðamennsku, vegna þess að sá hinn sami rekur og hefur rekið mjög öfluga ferðaþjónustu við sinn sveitabæ sem framleiðir tómata. Þegar ferðamenn hættu að koma til Íslands þá brá þessi ágæti maður á það ráð að tvöfalda framleiðslugetu sína í tómatarækt. Ég held að hann sé einmitt núna á þessum dögum og vikum að fá sína fyrstu uppskeru út af því. Ég gæti líka nefnt aðra framkvæmd sem er nær Reykjavík, reyndar ekki í Reykjavík, herra forseti, vegna þess að borgarstjórnin í Reykjavík gat ekki útvegað lóð fyrir þann ágæta aðila sem vildi stækka sína ylrækt mjög rösklega hér í Reykjavík þannig að sá hinn sami þurfti að fara upp í Mosfellsdal. En engu að síður þá er þarna uppbygging og það er fljótlegt að koma henni á laggirnar og hún er mjög fljót að byrja að hala inn miklar tekjur.

Það er líka annað, herra forseti, sem hefur áhrif á það hvernig við komumst út úr þeirri kreppu sem fylgir þessum faraldri. Það er verðbólga, sem sagt manngerð verðbólga, verðbólga af mannavöldum. Ég fer ekki ofan af því, herra forseti, að þegar svo er að dollar hefur lækkað frá 26. nóvember í fyrra úr 135 kr. í 121 kr. í dag og evra úr 161 kr. í 148 kr. í dag — það eru 10% önnur myntin og 8% hin — þá verður maður að krefjast þess að einokunarverslun á Íslandi, sem er virkileg einokunarverslun, skili þessari styrkingu gjaldmiðilsins inn í vöruverð til að stuðla að lægri verðbólgu. Og ef það er eitthvað sem ég gæti gagnrýnt seðlabankastjóra sem ekki alls fyrir löngu tók við starfi þá er það vaxtahækkun sem Seðlabankinn kom á um daginn. Mér fannst Seðlabankann í því tilfelli þrjóta örendið. Menn máttu sjá og vita að við vorum núna að komast út úr þessu ástandi sem við erum búin að vera í. Núna er ekki tíminn til þess að fara að hækka hér vexti stórlega til að koma þeim sem þegar hafa fjárfest í húsnæði — sem eru, nota bene, velflestir utan Reykjavíkur. Ég kem að því á eftir að sá meiri hluti sem ræður í Reykjavík er dragbítur á þær efnahagsaðgerðir sem þarf að gera á Íslandi vegna þess að Reykjavík er það stór leikandi á sviðinu hvað varðar byggingarlóðir. En nú er ekki rétti tíminn til að fara að setja í gang einhverja hækkunarmyllu sem verður út af hækkun vaxta sem menn hleypa strax út í verðlag sem þeir hafa ekki lækkað út af styrkingu krónunnar. Ég hefði óskað þess að Seðlabankinn hefði haft úthald til að sjá kannski eins og einn, tvo mánuði fram áður en þetta yrði gert með þessum hætti.

Það eru líka aðrar ráðstafanir sem hægt er að gera til að örva hagvöxt og örva neyslu. Við Miðflokksfólkið höfum flutt hér allnokkur mál sem t.d. beinast að því að auka atvinnuþátttöku og lengja atvinnuþátttöku aldraðra. Við höfum líka lagt það til að atvinnutekjur aldraðra rýri ekki lífeyristekjur. Því hefur verið haldið fram af fjármálaráðherra að þetta kosti ríkissjóð gríðarleg ósköp. En staðreyndin er sú að það gerir það ekki vegna þess að það að örva þennan hluta þjóðarinnar með auknum tekjum og auknum ráðstöfunartekjum skilar sér beint í neyslu hér, herra forseti. Þær gera það. Ég var á mjög góðri ráðstefnu í gær, reyndar eingöngu seinni hlutanum af henni sem Öryrkjabandalagið stóð fyrir, og við getum séð þetta líka ef öryrkjar fengju sínar bætur leiðréttar og við höfum t.d. lagt það til, Miðflokksfólk, að krónu á móti krónu skerðingu verði hætt. Þá kemur aftur sami söngurinn, að þetta kosti alveg gríðarlega mikið. En maður hlýtur að spyrja sig: Fólk sem varla hefur til hnífs og skeiðar á þeim tekjum sem það hefur í dag, hvað gerir það við tekjur sem það fær auka, kannski 10% eða 15% reiknuðum? Jú, sá tekjuauki fer beint í neyslu, í heimilisrekstur o.s.frv. Af því fer náttúrlega stór partur til ríkisins til baka í sköttum og gjöldum o.s.frv. Þannig að með því að örva þennan hluta einkaneyslunnar myndum við að sjálfsögðu örva hagvöxt.

En það er ekkert svona að finna í þessari áætlun, herra forseti, ekki neitt. Það er búið að margfara yfir það að ríkisstjórnin var búin að gefa það út að fjárfestingar á vegum hins opinbera væru að hækka alveg reiðinnar býsn. Það kom í ljós að það var því miður mjög orðum aukið. Nú er akkúrat tíminn til að örva opinberar framkvæmdir og ekkert endilega alveg risastórar framkvæmdir sem felast mest í því að vinnuvélar séu að verki heldur einnig hinar smærri, viðhald og annað sem örvar starfsemi meðalstórra og smærri fyrirtækja og einyrkja.

Við höfum líka lagt til, Miðflokksfólk, í fyrsta lagi, sem við lögðum fram í fyrra, að tryggingagjald yrði aflagt á tímabili. Það var ekki gert heldur voru fyrstu ráðstafanir ríkisstjórnarinnar fólgnar í því að hjálpa fyrirtækjum að losa sig við fólk og koma þeim á atvinnuleysisskrá. Nú erum við aftur á móti komnir í þau vandræði að fólk sem er langtímaatvinnulaust er í megnustu erfiðleikum með að fá vinnu og það er líka erfiðleikum háð, að því er virðist á sömu svæðum á Íslandi, að fá fólk í vinnu. Það er eftirspurn eftir vinnuafli, bæði austan lands og suður á Suðurnesjum og það hefur ekki gengið þrautalaust, herra forseti, að fá nægilegt fólk til vinnu. Síðast í gær eða fyrradag sagði einn af stærstu hótelhöldurum í Reykjavík að nú þyrfti hann að ráða frá grunni fólk inn í sitt fyrirtæki og hann lýsti því þá þegar yfir að það gæti orðið erfiðleikum háð. Þetta er náttúrlega mjög slæmt og það þarf með einhverjum hætti, og ekki er gert ráð fyrir því í þessu skjali, að örva það fólk sem hefur verið langtímaatvinnulaust til að sækja nú fram þegar störf skapast. Það virðist vera þannig, herra forseti, að ferðamennskan sé að taka við sér fyrr en við reiknuðum kannski með. Það segir einmitt í skýrslu fjármálaráðs um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að það sé engu líkara en að ríkisstjórnin treysti á það einvörðungu að ferðamennskan taki fljótt við sér og skapi þann vöxt sem nauðsynlegur er.

Það er kannski einmitt það sem einkennir og hefur einkennt þessa ríkisstjórn í fjögur ár, herra forseti. Hún er ekki þátttakandi. Hún fylgist með. Hún er ekki frumkvöðull, hún er ekki skapandi. Hún er ekki afl sem skapar framfarir. Hún er ekki afl sem skapar framtíðarsýn. Hún er svona eftirlitsaðili, hún situr á hliðarlínunni og horfir á það sem er að gerast. Og akkúrat fyrir mánuði síðan, herra forseti, við þær aðstæður núna þegar við þurfum á öllu að halda til að byggja upp þjóðfélag upp til framtíðar, sem byggist m.a. á nýsköpun, hvað gerir ríkisstjórnin? Hún leggur niður Nýsköpunarmiðstöð. Þetta, herra forseti, er alveg dæmigert fyrir þessa ríkisstjórn. Þetta er m.a. út af því að í samsetningu ríkisstjórnarinnar endurspeglast einmitt stefnuleysið eða það eru það margar stefnur uppi sem við fáum aldrei að vita um og er gengið frá einhvers staðar bak við luktar dyr, að menn ná ekki fram. Hvar birtist þetta? Jú, þetta birtist m.a. í því að það má ekki nýta einkaaðila sem gætu stytt biðlista á kvalir fólks um marga mánuði. Það er bannað. Og Sjálfstæðisflokkurinn lætur það yfir sig ganga. Það má ekki taka við peningum til þess að byggja upp í Helguvík og þar í grennd í kringum alþjóðaflugvöllinn á Reykjanesi af því að Mannvirkjasjóður NATO vill borga. Þessu kyngir Sjálfstæðisflokkurinn. Ég get ekki betur séð, herra forseti, á öllum þeim tölum sem við erum að horfa á núna en að við gætum sem best notað þessa milljarða sem er staðfest að lágu fyrir og liggja fyrir til að byggja upp í Helguvík, þ.e. stækka þar höfn og vinna þar fleira sem hefur svo aftur á móti tengsl við flugvöllinn. En Sjálfstæðisflokkurinn, utanríkisráðherra Vinstri grænna, segir: Nei, við getum ekki tekið við dollurum til þess að byggja þetta upp. Höfum við efni á þessu núna? Nei. Höfum við efni á því að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð núna þegar við þurfum á nýsköpun að halda? Nei. Þarna, eins og ég segi, brjótast fram og birtast þessar skrýtnu birtingarmyndir af því hvernig þessi ríkisstjórn er samansett.

Það er þyngra en tárum taki að horfa á það að einmitt núna þegar við þurfum íbúðarhúsnæði og það er búið að spá því að hér þurfi að byggja fjöldann allan af íbúðum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, þá kemur fram, m.a. í nýlegu blaðaviðtali við forstjóra eins af stærstu byggingarvörusölufyrirtækjum á Íslandi, að Reykjavíkurborg — og þetta erum við náttúrlega búin að benda á, Miðflokksfólkið og fleiri — er dragbítur á þessa þróun með því að vinna eingöngu að uppbyggingu á þéttingarreitum sem er dýrara, færri íbúðir en hægt væri að byggja. Þetta kristallast líka í því að á þessu svæði hér eru ekki til íbúðir sem falla undir nýframsett mál félags- og barnamálaráðherra um svokölluð hlutdeildarlán. Það er ekki til íbúð hér á höfuðborgarsvæðinu sem fellur undir þann verðramma sem er í því máli. Hún er ekki til og verður ekki til. Hún verður ekki til meðan menn eru að byggja á þéttingarlóðum, búnir að gera samninga við ofurstóra byggingarverktaka, búnir að gera samninga við ofursterka fjárfesta. Þetta hamlar því að fólk geti byggt yfir sig hús á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í Reykjavík. Og hvað er búið að gerast? Jú, ungt fólk flýr höfuðborgina, það flýr í nágrannasveitarfélögin, það flýr í útjaðrana eins og í Árborg, á Akranes, Suðurnesin og í Þorlákshöfn. Það gerir það líka, herra forseti, vegna þess að ég komst að því um daginn að ungt fólk sem býr á þessu svæði og í Reykjavík sérstaklega er farið að skipuleggja barneignir sínar þannig að börnin komi í heiminn að vori til þess að það líði ekki tvö ár þangað til þau komast inn á dagheimili eða inn í leikskóla. Þetta er náttúrlega algjör öfugþróun, herra forseti, algjör öfugþróun. Þessu verður ekki mótmælt, þetta hefur komið fram. Þetta hefur komið fram á spjallsíðum hjá ungu fólki sem er að skiptast á skoðunum. Þetta er staðan.

Því miður í þessu plaggi sem við erum að fjalla um er ekki framtíðarsýn til að styðja við hvorki þetta unga fólk eða aldraða né fyrirtæki eða auka framkvæmdir eða nýsköpun. Í þessu plaggi er nánast ekki neitt, herra forseti. Einmitt þegar við þurfum á leiðsögn og forystu að halda þá bregst hún eins og fyrr með þessa ríkisstjórn.