151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:13]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Það var greinilegt að hv. þingmaður kom allt of mörgum spurningum að. En kannski ég byrji á því sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson endaði á. Varðandi vandræðagang við það að forma nýja leið í tengslum við gjaldtöku af umferð þá gæti ég vel trúað því að stór hluti hans væri það ístöðuleysi hæstv. samgönguráðherra sem hefur skinið í gegn, m.a. í því að einn daginn er hæstv. ráðherra alfarið á móti veggjöldum, hinn næsta er hann fylgjandi þeim og síðan á þriðja degi er hann aftur orðinn andsnúinn þeim. Ég held að það skýrist að mestu leyti af því að hæstv. samgönguráðherra hafi enga sannfæringu fyrir því hvernig best verði á þessum málum haldið og þess vegna sé málið ekki unnið.

Ég vona að hv. þingmaður fyrirgefi mér en ég ætla að koma að útlendingamálum í seinna andsvari til að halda samfellu í þessu.

Svo er það aftur það sem snýr að því að með hvaða hætti gjaldtakan þróast milli umhverfisvænna ökutækja eða nýorkuökutækja og bensínökutækja. Það styrkjakerfi sem má segja að sé við lýði gagnvart nýorkubílunum sérstaklega, ef við afmörkum það, gengur út á að taka ekki pening af kaupendum þeirra bíla að sama marki inn í ríkissjóð og af hinum bifreiðunum. Það er því í sjálfu sér ekki verið að skila neinu, heldur eru ekki teknar af eigendum nýorkuökutækja sömu upphæðir og af bensínbílunum, þessum hefðbundnu jarðefnaeldsneytisbílum. Ég held að það sé nú ekki á þetta bætandi og hef lengi verið þeirrar skoðunar að við ættum að lækka álögur á bíla á Íslandi, sérstaklega er veruleg þörf á landsbyggðinni fyrir að fólk geti verið á öflugum bílum (Forseti hringir.) bara vegna vetrarfærðar á köflum og verri vega en við þekkjum hér á suðvesturhorninu. En ég mun koma að öðrum spurningum ef hv. þingmaður bætir ekki mörgum við.