151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:41]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér sjáum við þá stefnu sem ríkjandi stjórnvöld, ríkisstjórnin, munu fylgja næstu fjögur árin ef þau fá til þess brautargengi frá kjósendum. Ef jafnaðarmenn væru við stjórnvölinn, ef jafnaðarmenn væru í ríkisstjórn og ef jafnaðarstefnan væri leiðarljós við landsstjórnina, þá myndi allt hér miðast við það að venjulegt fólk, almenningur, gæti sinnt grunnþörfum sínum og sinna án þess að hleypa sér í stórkostlegar skuldir eða leggja á sig óheyrilega vinnu. Þessi fjármálaáætlun einkennist af staðfastri trú á að markmið ríkissjóðs snúist eingöngu um rekstur og rekstrarmarkmið en ekki um að nota sameiginlega sjóði landsmanna, sameiginlega sjóði almennings, þeim sama almenningi til hagsbóta. Ég tel, herra forseti, að við eigum hins vegar að einbeita okkur að því að fjárfesta í farsæld fólks.

Þessi fjármálaáætlun gerir ráð fyrir því að niðurskurður og skattahækkanir hefjist árið 2023 þegar spáð er 6–7% atvinnuleysi. Nær væri að fara ábyrgari leið, fara ábyrgu leiðina sem við í Samfylkingunni höfum talað fyrir og snýst um það að beita ekki of hörðum aðgerðum of snemma. Við viljum veita svigrúm og skapa frið um það hvernig eigi að skipta tekjum og afla þeirra. Við viljum dreifa byrðunum sem koma mjög ójafnt niður og almenningur ber, launafólk ber, þó að stjórnarflokkarnir vilji greinilega loka augunum fyrir því.

Með þessari fjármálaáætlun er það meginmarkmið að stöðva hlutfallslegan vöxt á skuldasöfnun en þar sést minni metnaður til þess að leggja út í arðbærar fjárfestingar, opinbera þjónustu, öflugri almannatryggingar, stuðning við fólk sem hefur misst vinnuna, stuðning við barnafjölskyldur, að fjárfest sé í farsæld fólks. Engar forsendur hafa breyst um almennar aðhaldskröfur á heilbrigðisstofnanir og annan ríkisrekstur. Aðhaldskröfur eru eins og við vitum veigrunarorð eða skrautyrði yfir niðurskurð. Það er sérlega ískyggilegt þegar um er að ræða stofnanir sem hafa verið vanræktar, jafnvel árum saman. Það hafa verið mjög krefjandi verkefni, eins og við vitum öll, í heilbrigðiskerfinu og gríðarlegt álag vegna heimsfaraldursins. Við það bætist öldrun landsmanna og á þeim tímum þegar við öll þessi verkefni er að fást er gerð krafa um aðhald. Það er enga innspýtingu að sjá. Gerð er 2% almenn aðhaldskrafa og 0,5% aðhaldskrafa á heilbrigðisstofnanir, öldrunarstofnanir og skóla á árinu 2022 og 1% almenn aðhaldskrafa á árunum 2023–2026. Samkvæmt þessari áætlun mun fjármagn í hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu lækka um rúm 4% og það þrátt fyrir þá öldrun þjóðarinnar sem á var minnst og dregur ekki úr nema síður sé. Nú fara mjög stórir árgangar fólks að komast á efri ár og þurfa á mikilli þjónustu að halda eðli málsins samkvæmt.

Samfylkingin leggur fram breytingartillögur við fjármálaáætlun sem snúast um að færa kjör barnafjölskyldna nær því sem gerist á Norðurlöndunum, sem gerist í þeim samfélögum sem við viljum gjarnan miða okkur við og vera partur af. Hér á landi byrja barnabætur að skerðast um leið og launin hafa náð 351.000 kr. á mánuði og þegar mánaðarlaunin eru rétt rúmlega 600.000 kr. á mánuði eru engar barnabætur í boði. Við í Samfylkingunni viljum breyta því. Við viljum að foreldrar sem eru með 600.000 á mánuði eða minna fái óskertar barnabætur og að stuðningur við barnafjölskyldur verði greiddur út mánaðarlega. Það segir sig sjálft að slíkt er mikilvægt fyrir fólk, einfaldlega til að skipuleggja betur fjármál sín.

Við í Samfylkingunni leggjum líka til umfangsmiklar breytingar til að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Við viljum að elli- og örorkulífeyrir hækki til samræmis við hækkun lægstu launa og að frítekjumark vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum hækki í skrefum upp í 100.000 kr. á mánuði úr 25.000 kr. Að lokum viljum við að frítekjumark vegna atvinnutekna bæði öryrkja og ellilífeyrisþega verði hækkað að lágmarkstekjutryggingu hverju sinni. Við leggjum til að þessar breytingar taki gildi í fjórum skrefum og það fyrsta verði stigið strax á árinu 2022. Þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda munu þær kosta um 30 milljarða kr. á ári en í því dæmi má reyndar gera ráð fyrir því að 25% renni aftur til ríkissjóðs í formi skatta. Rétt er að taka fram að þessir útreikningar og tillögur byggjast á nýútkominni skýrslu Eflingar.

Það eru fleiri knýjandi verkefni sem snúa að því að fjárfesta í farsæld fólks og þar er ekki síst að nefna loftslagsmálin. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál hefur áætlað að verja þurfi 2,5% af heimsframleiðslu árlega til loftslagsmála næstu árin bara til þess að takmarka megi hlýnun jarðar við 1,5°C miðað við meðalhitastigið fyrir iðnbyltingu. Þetta er tröllaukið verkefni sem mannkynið allt þarf að taka þátt í og enginn getur vikið sér undan því, ekki heldur við Íslendingar. Við í Samfylkingunni leggjum því til 5 milljarða aukningu á ári til loftslagsmála þar sem þeir fjármunir yrðu nýttir til að flýta orkuskiptum og fjármagna grænan fjárfestingarsjóð, flýta framkvæmdum vegna borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu, auka stuðning við landsbyggðarstrætó, styrkja hringrásarhagkerfið og græna matvælaframleiðslu. Við viljum líka gera breytingar á styrkjakerfi og styrkjaumhverfi landbúnaðar. Við viljum styðja betur við grænmetisframleiðslu og viljum stuðning við að gera íslenska stjórnsýslu græna. Þetta eru verðug markmið og ég vona heils hugar að þessar tillögur nái fram að ganga. Losun Íslendinga er aðeins brotabrot af útblæstri á heimsvísu, vissulega, en dæmin sýna að smáríki á borð við Íslendinga geta haft afgerandi áhrif með því að taka frumkvæði, sýna gott fordæmi og beita sér fyrir breytingum á alþjóðavettvangi.

Nátengd loftslagsmálunum og atvinnumálum eru fjárframlög til nýsköpunar. Þau voru aukin í ár og hækka lítillega samkvæmt áætluninni á næsta ári en strax tveimur árum seinna lækka framlögin um 26% og lækka um 34% á fimm árum. Fjármagn til hins opinbera hluta nýsköpunar hefur farið lækkandi undanfarin ár, eins og má lesa í umsögnum um lagafrumvarp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Við leggjum til að framlög til Tækniþróunarsjóðs, Rannsóknarsjóðs og Innviðasjóðs verði aukin og úrræðið Stuðnings-Kría verði fjármagnað þannig að ekki þurfi að skerða mótframlagslán til nýsköpunarfyrirtækja í rekstrarvanda. Við viljum að aukið verði við framlög til nýsköpunar og þróunar um 1,5 milljarða kr. árið 2024 og um 2 milljarða kr. árin 2025 og 2026. Þarna teljum við að verið sé að fjárfesta í farsæld fólks og lausnum á vanda sem við vitum ekki enn þá hverjar eru, þ.e. lausnirnar. Þarna sé líka verið að fjárfesta í menntun og fjárfesta í því að menntun fólks geti nýst á skapandi hátt og geti nýst til þess að takast á við þær miklu ógnir sem að mannkyninu steðja.

Eitt mál enn sem ég vil nota þann tíma sem ég hef hér til að gera að umtalsefni eru biðlistarnir. Biðlistar eru vitaskuld ákvörðun. Það er vitaskuld ákvörðun að nota biðlista sem einhvers konar úrræði fyrir heilbrigðiskerfið þó að vandséð sé hverra hagur það er. Við viljum fjármagna átak til að vinna á biðlistum sem hafa að sjálfsögðu vaxið umtalsvert á Covid-tímum. Þetta eru biðlistar sem eru vegna skurðaðgerða og líka biðlistar eftir geðheilbrigðisþjónustu þar sem þörfin hefur aukist gríðarlega. Samkvæmt minnisblaði Landspítalans til heilbrigðisráðuneytis frá því í febrúar síðastliðnum hafa biðlistar eftir sérfræðiþjónustu og skurðaðgerðum lengst á milli áranna 2020 og 2021. Því bíða núna alls 3.625 einstaklingar eftir skurðaðgerð en kórónuveirufaraldurinn hefur haft mismikil áhrif á biðtíma eftir tegundum skurðaðgerða. Það er augljóst að það verður að vinna á þessum biðlistum hratt og vel og við verðum að áætla til þess fjármagn. Þetta er óþolandi fyrir þá einstaklinga sem bíða og óhagkvæmt hvernig sem á það er litið. Við leggjum til að samtals 4,4 milljarðar kr. verði veittir í að vinna á biðlistunum á árunum 2022 og 2023. Biðlistar eftir geðheilbrigðisþjónustu hafa verið viðvarandi en þar varð talsverð aukning á milli áranna 2020 og 2021. Nú bíða alls 1.095 einstaklingar eftir geðheilbrigðisþjónustu hjá LSH og 131 barn bíður eftir þjónustu hjá BUGL. Samfylkingin leggur til að 500 milljónir verði veittar út áætlunartímann til að bregðast við þeim alvarlega vanda.

Þá þarf að styrkja almenna íbúðakerfið verulega og halda áfram að byggja óhagnaðardrifnar leiguíbúðir um allt land. Meginmarkmið almenna íbúðakerfisins er aukið framboð leiguhúsnæðis og að húsnæðiskostnaður fólks verði í samræmi við greiðslugetu. Við í Samfylkingunni leggjum til að á árunum 2022–2026 verði byggðar 3.000 íbúðir í almenna íbúðakerfinu og að stofnframlögin verði áfram 3,8 milljarðar kr. á ári til ársins 2026 líkt og samkomulag með lífskjarasamningnum gerir ráð fyrir til ársins 2022. Þar þarf því að bæta 2 milljörðum kr. við fjármálaáætlun áranna 2023–2026.

Nú fá þau heimili húsnæðisbætur frá ríkinu þar sem fjöldi heimilisfólks er samtals um 31.000 manns. Sérstakur húsnæðisstuðningur við leigjendur sem heyra undir félagsþjónustu sveitarfélaga er greiddur af sveitarfélögunum. Þau hafa farið fram á breytingar á þessu og að kerfin verði sameinuð. Vaxtabætur eru tekju- og eignatengdar bætur til þeirra sem greiða vaxtagjöld af lánum vegna eigin húsnæðis. Viðmiðunarupphæðir vegna vaxtabóta leiða svo til þess að þær ganga að mestu til þeirra sem ekki þurfa á þeim að halda. Við leggjum til hækkun á húsnæðisbótum til leigjenda og breytingu á viðmiðum vaxtabótakerfisins þannig að greiðslurnar nýtist betur fólki undir meðallaunum. Milljarður á ári yrði lagður til lagfæringar og samræmingar á húsnæðisbótakerfinu.

Ég hef nú skoppað lítillega yfir nokkrar breytingartillögur Samfylkingarinnar sem miða allar að því að fjárfesta í farsæld fólks.