151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það fór vel á því að hv. þingmaður kæmi inn á geðheilbrigðismálin af því að mig langar einmitt að nefna eitt af þeim sem dæmi. Ég fékk svar við fyrirspurn um átröskunarteymi Landspítala í byrjun árs og ef litið er yfir síðustu fimm ár þá kemur í ljós að teymið er fjórðungi minna í dag en það var fyrir fimm árum. Teymið er í húsnæðisvanda, það er á hrakhólum eftir að hafa flúið myglusmitað húsnæði fyrir þremur árum. Fjöldi á biðlista hefur sjöfaldast á þeim fimm árum þannig að biðtími eftir þjónustu teymisins er 18–20 mánuðir. Á þeim tíma getur tiltölulega vægur átröskunarsjúkdómur grafið um sig í einstaklingnum þannig að hann verði verulega alvarlegur vandi sem tekur miklu meiri tíma að ná tökum á. Þarna er því verið að spara aurinn en henda krónunni. Þarna er líka verið að taka séns með heilsu fólks og líf.

Hv. þingmaður talaði um skjól vegna heimsfaraldurs og við getum skoðað aðgerðir sem við höfum gripið til vegna faraldursins. Þar langar mig sérstaklega að nefna atriði sem hv. þingmaður lagði áherslu á hér á síðasta ári, sem var að foreldrar langveikra barna fengju laun meðan börnin þeirra gátu ekki verið í skóla eða dagvist eða hvar það var sem þau voru venjulega á daginn. Þetta fólk hafði umönnunarskyldu gagnvart börnunum sínum og missti þar með launin sín. Hvaða skjól fékk þetta fólk í heimsfaraldri?