151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[13:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um síðustu fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar. Það er áhugaverð saga frá því að fyrsta fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar var lögð fram þar sem boðuð var mikil uppbygging innviða, bæði óáþreifanlegra og áþreifanlegra innviða. Þessi síðasta áætlun endurspeglar og sýnir þá staðreynd að vel hefur tekist til við að byggja upp mikilvægar stoðir, hvort sem er í heilbrigðiskerfi, menntakerfi, velferðarkerfi eða í hinum áþreifanlegu innviðum. Um leið sýnir þessi síðasta áætlun ábyrgð því að við erum stödd undir lok kjörtímabils og ekki er að finna neina feita tékka fram í framtíðina, en hún endurspeglar þá sýn að við getum vaxið út úr þeirri stöðu sem við erum í núna og það munum við gera. Ég hef fulla trú á því að íslenskt efnahags- og atvinnulíf muni núna spyrna hratt við fótum og fara hratt upp á við. Til þess eru allar forsendur og þær hafa m.a. verið lagðar með ábyrgri stjórn ríkisfjármála undanfarin ár. Þetta er því ábyrg áætlun sem gerir ráð fyrir því að við munum spyrna hratt við. Um leið leggjum við aukna áherslu á einn mikilvægasta málaflokk samtímans sem er auðvitað (Forseti hringir.) loftslagsváin þar sem enn er gefið í.