151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaáðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þegar ég gaf síðast skýrslu á Alþingi þann 26. apríl síðastliðinn um faraldurinn höfðu brotist út nokkur hópsmit hér á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi, en það tókst að ráða bug á þessum hópsmitum með hefðbundnum aðgerðum sem við höfum haft góða reynslu af í öllum faraldrinum. Ekki kom til þess að grípa þyrfti til hertra takmarkana innan lands vegna þessara hópsmita en í maímánuði hefur fjöldi smita verið á bilinu 0–7 smit á dag og langflest hafa verið í sóttkví við greiningu. Þann 10. maí tók gildi reglugerð um samkomutakmarkanir þar sem fjöldatakmörk voru aukin úr 20 manns í 50 og í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis ákvað ég að áfram yrði haldið með afléttingar hér innan lands með nýrri reglugerð sem tók gildi þann 25. maí síðastliðinn. Megininntak þessara tilslakana var að fjöldatakmörk hækkuðu í 150 manns og slakað var á grímuskyldu og 2 metra reglunni. Takmörkunum á gestafjölda sund- og baðstaða, skíða- og tjaldsvæða og safna var aflétt og sömuleiðis á líkamsræktarstöðvum. Hámarksfjöldi áheyrenda eða gesta á sitjandi viðburðum fór úr 150 í 300 manns í hverju sóttvarnahólfi og veitingasala í hléi varð heimil. Afgreiðslutími á veitingastöðum var lengdur til kl. 23, en í verslunum var grímuskylda afnumin og regla um 200 manna hámarksfjölda viðskiptavina felld úr gildi. Reglugerð um þessar breytingar gildir til og með 16. júní.

Samtals eru í dag, samkvæmt upplýsingum á covid.is, 202 einstaklingar í sóttkví, 1.573 í svokallaðri skimunarsóttkví, 40 einstaklingar í einangrun og tveir á sjúkrahúsi. Langstærstur hluti þeirra sem eru í einangrun er á aldrinum 18–49 ára, enda er búið að verja flest þau sem eldri eru með bólusetningum. Bólusetningar landsmanna ganga vel, eins og við fylgjumst öll vel með. Nú þegar hafa um 60% fullorðinna fengið í það minnsta einn skammt af bóluefni. Ef áætlanir ganga eftir má gera ráð fyrir að yfir 90% hafi fengið fyrri skammt bóluefnis síðari hluta þessa mánaðar. Í dag eru 91.893 fullbólusettir. Það er 31% þeirra sem fyrirhugað er að bólusetja. Ég held að við getum öll verið ánægð með stöðuna í bólusetningum eins og hún er í dag.

Varðandi landamærin þá gildir reglugerð um sóttkví, einangrun og sýnatöku á landamærum Íslands til og með 15. júní næstkomandi. Þar er líkt og áður gert ráð fyrir því að framvísa þurfi neikvæðu PCR-prófi, fara í sýnatöku á landamærum, fara í sóttkví í fimm daga og sýnatöku að henni lokinni. Þá voru gerðar þær breytingar á reglugerðinni að frá og með 31. maí er ekki lengur skylt að fara í sóttvarnahús vegna komu frá hááhættusvæði, en áfram verður þeim skylt að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi sem ekki geta verið í sóttkví í húsnæði á eigin vegum. Það er gert vegna þess að nýgengi smita á landamærum hefur farið stöðugt lækkandi frá því að skyldudvöl í sóttvarnahúsi tók gild í lok apríl.

Þá hefur Evrópuríkjum fækkað hratt á lista yfir hááhættusvæði samfara niðursveiflu í faraldrinum í álfunni. Eins og verið hefur eru bólusettir og þeir sem framvísa vottorði um fyrri sýkingu undanþegnir sóttkví við komu til landsins. Þessi hópur fer sístækkandi og nemur nú um 80% allra komufarþega um Keflavíkurflugvöll. Stefnt er að því að hætta að taka sýni úr þessum hópi frá miðjum júní.

Að lokum er vert að geta þess að breytingar á lögum um loftferðir hafa tekið gildi og mun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra gefa út reglugerð á morgun þar sem skylda verður lögð á flugrekendur að skoða vottorð farþega fyrir byrðingu í samræmi við lögin. Þetta getur létt verulega á álagi og afgreiðsluhraða á Keflavíkurflugvelli. Ráðherraráðið og Evrópuþingið hafa náð samkomulagi um útfærslu á stafrænum Covid-19 vottorðum sem eiga að auðvelda ferðalög milli landa í sumar. Reglurnar ná yfir bólusetningarvottorð, vottorð um fyrri sýkingu og PCR-vottorð, allt vottorð sem nú þegar er verið að meta á landamærum Íslands með ærinni fyrirhöfn. Reglurnar, sem nú hefur náðst eining um, fela í sér að Covid-19 tengd vottorð verða gefin út á samræmdan hátt innan EES og Sviss þannig að þau verði tekin gild á landamærum. Gert er ráð fyrir að þessi vottorð verði komin í gagnið 1. júlí og Ísland er nú þegar tæknilega undirbúið að taka þátt í tilraunaverkefni sem hefst á næstu dögum.

Eins og ég hef farið yfir er staðan á faraldrinum góð hér á landi. Við höfum slakað á reglum um samkomutakmarkanir. Bólusetningar ganga vel og daglegt líf okkar verður smám saman eðlilegra. Við þurfum þó að muna að fara áfram varlega, muna að spritta og fara í sýnatöku ef við finnum fyrir einkennum — þetta er ekki búið. En mig langar til að nota þetta tækifæri til að hvetja öll til að fara í bólusetningu þegar boð berast, það er vonandi stutt eftir og við klárum þetta saman með samstöðunni að vopni hér eftir sem hingað til.