151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hvernig getum við lært af þessum faraldri? Við eigum auðvitað eftir að gera allt þetta tímabil upp og eins og hv. þingmaður nefnir í fyrirspurn sinni er alveg ljóst að við sjáum ekki í dag allar mögulegar afleiðingar faraldursins, á samfélagið, á einstaklinga og ekki síst á þau sem langmest hefur mætt á í framlínunni, hvort sem er í heilbrigðisþjónustu, í skólunum okkar, í félagsþjónustu eða hvar það er í kerfinu. Það skiptir máli að við gerum það allt saman upp með opin augun og að við pössum upp á að vera þakklát öllu því fólki sem hefur lagt sig fram í þágu samfélagsins. Það sem við höfum lært og er jákvætt er það að við höfum séð hvað heilbrigðiskerfið okkar býr yfir miklum styrk, miklum sveigjanleika og miklum þrótti til nýsköpunar. Margt af því sem við höfum verið að gera í íslenska heilbrigðiskerfinu, hvort sem er í sýnatöku eða meðferð Covid-sjúklinga, endurspeglast af nýsköpunarþrótti og góðum hugmyndum til breytinga.