151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:41]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Einni skurðstofu á Landspítala hefur verið lokað og skurðaðgerðum frestað vegna manneklu á spítalanum og plássleysis á gjörgæsludeild. Þá hefur hjartaskurðlæknum fækkað um helming og er aðgerðum til leiðréttingar á holbrjósti helst frestað. Bráðaaðgerðir voru í forgangi á spítalanum í fyrra þar sem valkvæðum aðgerðum var mikið til frestað vegna plássleysis á gjörgæsludeild. Þá hafa tveir af fjórum hjartaskurðlæknum látið af störfum síðastliðið ár og fimm sérfræðingar sagt upp störfum á bráðamóttöku Landspítala á síðustu vikum. Undirmönnun á gjörgæslu gerir það að verkum að sjúklingur getur ekki lagst þangað inn eftir aðgerð. Því frestast aðgerðir, búið er að fækka skurðstofum úr sjö í sex.

Herra forseti. Nú þarf að spyrna við fótum. Þrátt fyrir heimsfaraldur verður að sinna öðrum þáttum heilbrigðiskerfisins. Covid er á undanhaldi sem betur fer og þá blasir því miður við heilbrigðiskerfi sem er að niðurlotum komið. Félag sjúkrahússlækna sendi frá sér tvær ályktanir á dögunum um mönnun, álag og öryggi á heilbrigðisstofnunum annars vegar og um úrbætur á réttarstöðu heilbrigðisstarfsfólks hins vegar. Eru stjórnvöld hvött til að tryggja að mönnun lækna sé fullnægjandi svo starfsálag sé ásættanlegt og á það auðvitað við um allar heilbrigðisstéttir. Starfsumhverfi þeirra þarf að styðjast við fagleg vinnubrögð þannig að öryggi sjúklinga sé ávallt í öndvegi. Þá segir loks í ályktun að til að tryggja öryggi á vinnustað sé einnig mikilvægt að tryggja eðlilegt framboð sjúkrarúma og þar með lækka meðalnýtingu þeirra í samræmi við þær þjóðir sem við berum okkur saman. Það sem læknar lýsa á við um alla heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi og ástandið á heilbrigðisstofnunum.

Herra forseti. Ástandið er grafalvarlegt í kjölfar Covid. Hvað ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra að taka til bragðs?