151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Já, þetta varðar stöðuna. Skýrslan sem heilbrigðisráðherra kynnti er hennar útgáfa af stöðunni en hér verðum við að ræða um stöðuna í heild í kjölfar Covid-faraldurs, í kjölfar heimsfaraldurs, því að þá þarf að hlúa að fólki, hvort tveggja almenningi, sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin metur það svo að geðheilsa sé það sem helst hafi orðið undir í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn og er Ísland ekki undanskilið. Aldrei í sögu þjóðar hafa jafn margar konur tekið líf sitt hér á Íslandi og í fyrra, rúmlega tvöfalt fleiri en árið áður. Það er enginn geðlæknir í fastri stöðu á landsbyggðinni. Sálfræðiþjónusta í sjúkratryggingakerfinu er ófjármögnuð þrátt fyrir skýran vilja Alþingis. Ríkisstjórnin ákveður að dreifa 600 millj. kr. í fjárauka eins og smartísi yfir landið í þágu geðheilbrigðis heillar þjóðar eftir heimsfaraldur á sama tíma og þessi sama ríkisstjórn setur 1.500 milljónir í ferðagjöf sem helst er nýtt á bensínstöðinni N1 og KFC.

Herra forseti. Þessi smáskammtalækning ríkisstjórnar í geðheilbrigðismálum þjóðar eftir kórónuveirufaraldur er ekki boðleg. Biðlistar hafa lengst umtalsvert. 80% aukning er í bráðainnlögnum barna og ungmenna á barna- og unglingageðdeild á undanförnu ári. Geðlæknir sem starfar þar sagði nýverið um háa sjálfsvígstíðni barna að hún væri ekki tilviljun heldur langtímaafleiðing sparnaðar í forvörnum og úrræðaleysis í kerfinu.

Herra forseti. Það eru 150 börn á biðlista á göngudeild BUGL. Það eru 340 börn á biðlista hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Það eru 600 börn á biðlista hjá Þroska- og hegðunarstöð.

Herra forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra. Við ræðum hér ástandið eftir Covid. Við verðum (Forseti hringir.) að þora að mæta því ástandi og viðurkenna að þetta er staðan í dag. Þetta er staðan í dag, hæstv. heilbrigðisráðherra.