151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka pólitíkinni dálítið fyrir góðan árangur í faraldrinum. Heilt yfir litið hafa allir hérna inni unnið mjög ötullega að því að ráða niðurlögum þessa faraldurs. Þar má alveg þakka ríkisstjórninni fyrir ýmislegt og stjórnarandstöðunni líka fyrir ýmislegt. Við Píratar höfum einna helst verið með áherslur á að fá betri rökstuðning fyrir sóttvarnaaðgerðum, leggjum mjög mikla áherslu á það, eins og kom upp með sóttvarnahótelin og loftferðir hérna síðast.

Af þeim aðgerðum sem við hefðum viljað hafa betri í heildarferlinu þá hefðum við viljað betri rökstuðning fyrir sóttvarnaaðgerðum og kannski var aðgerðin þegar opnað var síðastliðið sumar ekki alveg nógu vel rökstudd og kom ekki nægilega vel út eftir á að hyggja. En það er erfitt að horfa alltaf í baksýnisspegilinn. Aðkoma okkar að þessu hefur verið sú að reyna að fá aðeins meiri fyrirsjáanleika og rökstuðning fyrir því sem gert er. Það er mikilvægt að fá betri rökstuðning fyrir sóttvarnaaðgerðum því að þolinmæðin er ekki endalaus. Við sáum það t.d. núna í síðustu bylgjunni varðandi aðgerðir á landamærum og smit slapp í gegn, að þá var engin þolinmæði og í rauninni enginn skilningur á þeim réttindum sem fólk hafði t.d. til útivistar þegar það var í sóttkví og þess háttar. Það var erfið aðstaða. Við sjáum það núna á sóttvarnahótelunum að fólk kemur hingað, eyðir fimm dögum á sóttvarnahóteli og fær tvær klukkustundir í útiveru en fær engar upplýsingar, hvorki á ensku né pólsku. Þetta er allt erfitt. En við erum að komast í höfn og krafa okkar í Pírötum hefur verið að stjórnvöld sinni sínu kannski aðeins betur, gefi betri rökstuðning. Það hefur aðeins skort upp á það.