151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þá langar mig í seinni ræðu að spyrja hæstv. ráðherra aðeins um meiri fyrirsjáanleika varðandi bólusetningar. Það er smá óvissa varðandi bólusetningar fyrir t.d. fólk sem er búið að fá AstraZeneca. Það á von á því að fá næstu sprautu fljótlega en samkvæmt afhendingaráætluninni sér maður ekki að AstraZeneca sé að koma til landsins og þá veit fólk ekki hvort það mun fá sama bóluefni aftur eða einhverja aðra sprautu, eða hvernig því verður reddað. Ég held að því verði alveg reddað, en hvernig? Af hverju er þetta? Það er fyrirsjáanleikinn sem maður myndi vilja hafa hérna. Í viku 13 voru 8.000 bólusett með AstraZeneca. En í vikum 25 og 26, sem eru vikurnar sem ætti samkvæmt vef Stjórnarráðsins að bólusetja þessa 8.000 í, eru engar staðfestar áætlanir um neina skammta af AstraZeneca. Það er svona fyrirsjáanleiki sem maður sér úr tölunum og það er fullt af góðum tölulegum upplýsingum, en stundum er spurning varðandi götin eða það sem vantar í tölulegu upplýsingarnar. Þá væri áhugavert að vita um plan B, sérstaklega í þessu tilviki. Það væri vel þegið.