151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:33]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og tek einmitt undir það, það verður seint fullþakkað, og mikilvægi þess að við getum leitað til svona aðila, mikilvægi þess að við höfum hér öflugt vísindasamstarf og öflug nýsköpunarfyrirtæki sem eru tilbúin að stíga inn í og koma með okkur í þessa baráttu. Það sem er kannski þessu tengt líka, vegna þess að okkar frábæri Landspítali hefur þurft að loka á aðgerðir, það hefur allnokkrum sinnum þurft að fresta aðgerðum sem ekki eru lífsnauðsynlegar, er mikilvægi þess að við getum leitað annað og út fyrir spítalann og fleiri aðilar séu tilbúnir að taka að sér slík mikilvæg verkefni.

Mig langar líka að nefna hér, því það hefur svolítið komið fram í umræðunni, lýðheilsu og þá ekki beint út frá bólusetningu sem er að sjálfsögðu lýðheilsa heldur kannski geðheilbrigði, það að fólk hreyfi sig, hollt mataræði og annað þess háttar og mikilvægi þess að við fylgjumst með því. Ég dáist að því sem landlæknisembættið hefur verið að gera í sínum rannsóknum (Forseti hringir.) og hygg að við getum tekið út úr þessu átaki, ef við orðum það svo, mikilvægar upplýsingar um það hvernig best verði staðið að því að (Forseti hringir.) hvetja til bættrar lýðheilsu hér á landi.