151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og get tekið undir ýmislegt sem þar kemur fram. Eins og í andsvörum við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson finnst mér rétt að árétta að þótt frumvarpið sem hér um ræðir sé vissulega mikilvægt svo langt sem það nær, þá felur það ekki í sér heildarlausn allra þeirra vandamála sem við er að glíma á þessu sviði. Þetta er partur af lausninni. Með því að breyta ákvæði 227. gr. almennra hegningarlaga um mansal með þeim hætti sem hér er gert er verið að reyna að ná tvíþættu markmiði, annars vegar að bæta stöðu brotaþola og hins vegar að auðvelda málsókn gegn þeim sem grunaðir eru um brot af þessu tagi. Þannig að þó að þetta mál og reyndar ekkert mál muni fela í sér heildarlausn þess vanda sem við er að glíma þá er þetta mikilvægt mál.

Af því að hv. þingmaður nefndi sérstaklega í ræðu sinni hversu fá mál hafi sætt ákæru og leitt til dóms þá var það meðal þeirra ábendinga sem leiddi til þess að frumvarpið er lagt fram, að með breytingum á almennum hegningarlögum mætti færa lögreglu og ákæruvaldi frekari vopn í hendurnar að þessu leyti þannig að það væri þá auðveldara að koma lögum yfir þá sem sannarlega brjóta af sér með þessum hætti.

Síðan erum við auðvitað að vinna að margþættum aðgerðum á grundvelli stefnumótunar sem var síðast endurnýjuð árið 2019, um aðgerðir gegn mansali. Þetta er bara partur af þeirri vinnu, mikilvægur partur, en, eins og ég tók fram hér áðan, felur auðvitað ekki í sér heildarlausn á þessum vanda.