151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[15:30]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Svo það sé alveg skýrt, og ég taldi mig raunar segja það skýrt, fagna ég þessari breytingu og tel að hún sé af hinu góða. Ég var einfaldlega að benda á þá stöðu og þann veruleika sem horfir við okkur, sem er annars vegar sú staðreynd að þessi mál virðast fram til þessa a.m.k. ekki hafa komið upp á yfirborðið með þeim hætti að þolendur leiti til lögreglunnar, eins og á við um mörg önnur brot. Ég veit t.d. að Vinnueftirlitið og lögregla hafa verið í verkefnum þar sem þau sækja vinnustaði heim. Sú vinna er mjög mikilvæg. En eftir stendur að það hamlar rannsóknum þessara mála þegar upphafspunkturinn í rannsókninni er ekki sá að brotaþoli komi fram með sögu og frásögn. Hinn punkturinn er sá sem ég nefndi, að þetta hefur leitt til þess m.a. að ákærur í þessum málaflokki eru hverfandi. Ég held að lagaákvæðið muni hjálpa til, vissulega vegna þess að þarna eru ákæruvaldið og lögreglan komin með beittari vopn og verkfæri í hendur. En fylgi þessu ekki stuðningur með öðrum hætti til þeirra stofnana sem eiga við þessi brot hef ég áhyggjur af því að áhrifin verði kannski minni en til er ætlast.